Anton Guðjónsson
Maður truflaði ræðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, er hún ávarpaði landsfund flokksins í dag og sagði henni að skammast sín.
Katrín var að tala um að Vinstri græn hefðu verið í ríkisstjórn í 10 ár af síðustu 20 árum og var að lista málefni sem komið var í gegn á þeim tíma þegar maðurinn greig fram í fyrir Katrínu.
„Ég get ekki staðið hérna lengur. Þetta er lygi. Lindarhvolsmálið gleymist. Þú gleymdir Lindarhvoli,“ sagði maðurinn.
„Ég er nú ekki búin að tala, kæri vinur,“ svaraði Katrín.
„Ég nenni ekki að hlusta á þessa helvítis lygi í þér,“ sagði maðurinn.
Þá sagði Katrín: „Þá skaltu bara fara fram“.
„Ég mun gera það og ég vona að þú standir með þjóðinni, en sért ekki í stríði við hana. Að fara til Úkraínu og þykjast vera eitthvað […] og sért svo í stríði við þjóðina, skammastu þín,“ sagði maðurinn.
„Já, takk fyrir það. Það er ágætt að fá athugasemdir en ég ætla að leyfa mér að vera algjörlega ósammála þessum ágæta manni, því allt sem ég hef talið upp er sannleikur, en við búum auðvitað þar sem fólk velur sér staðreyndir og það má hafna því öllu sem ég segi hér en eigi að síður er þetta allt staðreyndir,“ sagði Katrín áður en hún hélt áfram ræðu sinni.