„Auðvitað mjög vondar fréttir“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir fréttir dagsins af Niceair …
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir fréttir dagsins af Niceair vera vonbrigði.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir fréttir dagsins um að akureyrska flugfélagið Niceair hafi þurft að aflýsa öllum flugferðum sínum og gera hlé á starfsemi sinni vera mikil vonbrigði. Hún segist þó enn halda í von um að annar flugrekstraraðili komi að verkefninu.

Flugfélagið Niceair hefur aflýst öllum flugferðum frá og með morgundeginum og gert hlé á allri starfsemi. Samkvæmt forsvarsmanni Niceair gerist þetta vegna þess að flugrekstraraðili Niceair hefur misst einu flugvél félagsins. Því er ómögulegt fyrir það að sinna þeim verkefnum sem það hefur tekist á hendur.

„Þetta eru auðvitað mjög vondar fréttir,“ segir Arnheiður í samtali við mbl.is. „Bæði vegna þessarar framtíðarmyndar sem við höfðum varðandi erlenda markaðinn og ekki síður vegna heimamanna sem voru mjög duglegir að nýta flugið.“

„Það var auðvitað mikið högg þegar Bretlandsmarkaðurinn datt út strax í upphafi Niceair, sem hefur auðvitað keðjuverkandi áhrif,“ segir hún. „Hins vegar hafði ég trú á því að félagið væri í góðum málum og yrði starfandi núna þetta sumar og í framtíðinni og myndi ná þessu Bretlandsflugi nú í haust.“

Spurning hvort erlendir aðilar taki við stýrinu

Arnheiður segir að þrátt fyrir þessar hindranir sé góður heimamarkaður fyrir flugfélög sem hyggjast fljúga út fyrir landsteinana. Hún segir að Niceair hafi sýnt fram á nýtingu á vellinum sem sýni að enn sé góður kostur að fljúga þangað.

„Nú er það spurning um hvort það eru hin innlendu flugfélögin okkar sem grípa þennan markað eða erlendir aðilar sem gætu tekið leiguflugsseríur og þjónað þessum markaði,“ segir hún.

Arnheiður kveðst hafa séð stíganda í fjölda erlendra félaga sem eru að hefja flug til Akureyrarflugvallar. Hún vonar að einhver að þeim aðilum sjái tækifæri í markaðnum.

„Við horfum björtum augum til framtíðar með von um að það komi annað hvort aðilar sem endurreisi Niceair eða að það komi aðrir aðilar inn.“

Vél Niceair á Akureyrarflugvelli.
Vél Niceair á Akureyrarflugvelli. mbl.is/Þorgeir

Áhrifin lítil á ferðaþjónustu til skemmri tíma litið

Arnheiður segir skammtímaáhrifin af aflýsingum félagsins á ferðamennsku vera minni háttar þar sem ekki hafi verið mikið um erlenda ferðamenn í flugferðum Niceair.

„Það er í rauninni bara þegar við horfum til framtíðar sem þeir möguleikar sem voru til staðar eru það ekki lengur.“

Hún segist hafa séð aukinn fjölda erlendra ferðamanna fljúga norður en að það hafi aldrei verið stór hópur. Það sé því ekki mikið tap sem blasir við í ferðamennskunni vegna þessa.

„Það eru auðvitað ferðamenn sem eiga bókaða ferð hér í sumar og það eru erlendar skrifstofur sem eru með hópa sem ætluðu að koma hingað með Niceair,“ segir hún.

Þeir ferðamenn þurfi nú að finna sér nýjar leiðir til landsins og hún bætir að það gæti orðið erfitt í sumar, einkum fyrir stærri hópa, með tilliti til þess að gistingar séu að mestu leyti uppbókaðar.

Heimamarkaðurinn sterkur

Arnheiður segir að meginþorri flugferða hafi verið nýttur af heimamönnum. Hún segir að heimamarkaðurinn sé góður grunnur, sérstaklega ef miðað er við íbúafjölda og að mikil nýting hafi verið á flugferðunum.

„Nú þegar við höfum sýnt fram á þessar nýtingartölur, sem eru miklu miklu hærri en það sem nokkur gæti ímyndað sér, er hægt að sýna fram á að heimamarkaðurinn sé sterkur grunnur á að byggja upp flugleið.“

Hún segir að stærstu flugferðir félagsins hafi verið til Tenerife en að heimamenn hefur einnig verið dugelgir við að nýta sér flug til Kaupmannahafnar.

„Það er auðvitað frábært að sjá svona verkefni fara í gang og sjá þessa góðu nýtingu sem hefur verið til dæmis á Kaupmannahafnarfluginu hjá Niceair sem hefur sýnt fram á að þetta er hægt, þrátt fyrir þessar hindranir sem Niceair lendir í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert