Eingöngu „hlussur“ á lausu

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri NiceAir, segir að ekki hafi komið til greina að fá þær flugvélar sem voru á lausu hjá HIFly þar sem þær voru einfaldlega of stórar fyrir rekstur NiceAir. „Það er einfaldlega ekki hægt að taka svona hlussu fyrir það sem við þurfum í okkar rekstur,“ segir Þorvaldur.

HiFly er með flota Airbus véla en þær hentuðu ekki að sögn Þorvaldar. Avalon Aircraft Leasing á vélina sem HiFly framleigði til NiceAir, en sú vél var svo tekin þar sem HiFly stóð ekki í skilum við sinn lánveitanda og því fór sem fór og NiceAir missti vélina eins og greint var frá fyrr í dag.

NiceAir missti vél vegna vanskila leigufélagsins HiFly.
NiceAir missti vél vegna vanskila leigufélagsins HiFly.

Áhafnarvandi bættist við  

„Við reyndum allt til að fá flugvél. En þetta er versti tími ársins til að fá vél þar sem nú eru páskar. Jafnvel þó við hefðum getað fengið vél þá var áhafnarvandi,“ segir Þorvald og bendir á að þjálfaðar áhafnir þurfi að fylgja hverri vélartegund. 

Spurður hversu lengi félagið getur haldið úti starfsemi án þess að fara í þrot í ljósi útgjalda til starfsfólks t.a.m. þá segir Þorvaldur að hann geti ekki tjáð sig um það að svo stöddu. „Ég á erfitt með að tjá mig um það því þetta hefur svo nýlega gerst,“ segir Þorvaldur.

Fjármögnun nýlega lokið 

Hann segir að hann hafi reynt hvað hægt var til þess að fá vélar til flugs frá Kaupmannahöfn og Tenerife en búið var að selja flugferðir til og frá þessum stöðum. Enginn er hins vegar strandaglópur í Kaupmannahöfn en tekist hafi verið að fá vél til að flytja fólk til Íslands sem er nú þegar á Tenerife.

Hann gerir ekki ráð fyrir því að það verði erfitt að koma félaginu aftur í rekstur að því gefnu að flugvélar verði til staðar. „Það má ekki gleyma því að við vorum nýbúnir í fjármögnunarlotu sem við vorum ekki búnir að kalla inn,“ segir hann.

Um 200 milljónir króna söfnuðust í þeirri fjármögnunarlotu en meðal fjárfesta var t.a.m. Byggðastofnun að sögn Þorvaldar.

Árétting : Fram kemur í greininni að engin sé strandaglópur í Kaupmannahöfn. Hið rétta er að NiceAir hefur endurgreitt farþegum flug og látið fólk um að koma sér sjálft til Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert