Þórólfur Ómar Óskarsson og fjölskylda eru afar ósátt við það upplýsingaflæði sem komið hefur verið frá NiceAir varðandi flug frá Kaupmannahöfn sem féll niður. Situr hann nú uppi með stór fjárútlát þar sem hann þurfti að finna flug fyrir sig og fjölskylduna með nær engum fyrirvara um páska þegar verð er í hæstu hæðum.
Telur hann að tap fjölskyldunnar nemi hundruðum þúsunda vegna dýrra flugmiða og kostnaðar við bílaleigubíl frá Keflavík á Akureyri þaðan í Eyjafjörð þar sem hann er bóndi. „Við erum búin að kaupa okkur flug með Icelandair og þegar þangað er komið þurfum við að leigja bíl og keyra um nóttina,“ segir Þórólfur.
Hann telur að ef NiceAir ætli að vera í „alvöru starfsemi“ hér eftir hefði verið lag fyrir fyrirtækið að útvega fólki önnur flugsæti heim í stað flugferðarinnar sem féll niður með innan við dags fyrirvara.
Til stóð að hann kæmi með flugi klukkan 2 á morgun en ef hann hefði tekið flug á sama tíma með IcelandAir myndi það kosta hann tæplega 100.000 kr fyrir hvern fjölskyldumeðlim og því valdi hann að fara frekar um kvöldið með sama flugfélagi og greiða rétt um 55 þúsund krónur. Ofan á það bætast svo um 60 þúsund krónur sem það kostar að leigja bíl og keyra til Akureyrar og skilja bílinn svo eftir þar.
Þórólfur er þess fyrir utan bóndi og greiðir fyrir afleysingu og allt kosti þetta sitt. „Ég hef ekki hugmynd um það á þessum tímapunkti hvað af þessum fjármunum ég mun fá til baka. Þessir endurgreiðslupeningar eru ekkert komnir til okkar. Þeir munu kannski gera það í gegnum ferðatrygginguna á kortinu en eru ekki komnir nú þegar,“ segir Þórólfur.
Hann segir að betra hefði verið að vita af framvindu mála með meiri fyrirvara. „Svo þegar ég sendi tölvupóst þá fékk ég bara til baka að haft verði samband við mig þegar skrifstofan opnar aftur. Það gefur manni ekki tilfinningu fyrir því að flugfélagið líti á þetta sem einhverja krísu,“ segir Þórólfur.