Niceair hefur aflýst öllum flugferðum frá og með morgundeginum. Þá hefur félagið gert hlé á allri sinni starfsemi.
Framkvæmdastjóri Niceair, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort starfsfólki félagsins verði sagt upp.
„Það gæti vel verið að þetta leysist fyrir sumarið. Okkur er gert ókleift að halda áfram að selja miða á meðan við erum ekki klár með vél. Við erum búin að róa lífróður að reyna að finna vél undanfarna daga,“ segir Þorvaldur.
Vegna vanskila við eigandann hefur HiFly misst flugvélina sem Niceair nýtti til flugsins. Þetta geri því Niceair ómögulegt að standa við skuldbindingar sínar gagnvart flugfarþegum.
Í tilkynningu frá félaginu segir að þrátt fyrir góðan árangur á síðastliðnu ári, sterka bókunarstöðu og góðar horfur inn í árið, þá sé komin upp staða sem geri Niceair ómögulegt að veita þá þjónustu sem til stóð.
„Þetta er sorgleg niðurstaða í ljósi þess árangurs sem náðst hefur til þessa og góðra framtíðarhorfa,auk þess sem félagið hefur rétt lokið við fjármögnunarlotu sem tryggja á rekstur þess fram veginn, en sú vegferð hefur staðið yfir frá áramótum. Við höfum haldið úti reglulegu áætlunarflugi milli Norðurlands og Kaupmannahafnar og Tenerife síðan í júní á síðastliðnu ári með 71% sætanýtingu.
Við erum búin að sýna fram á að þessi þjónusta er mjög þörf og heimamarkaðurinn hefur reynst meiri og öflugri en vonir stóðu til. Á þessu tímabili hefur veður sjaldnast haft áhrif, en 2% fluga okkar voru með einhvers konar frávik.
Flug um Akureyrarflugvöll reyndist ekki vera vandamál um hávetur og var lent og tekið á loft í marglitum viðvörunum á tímabilinu. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir alla. Mest hörmum við þau óþægindi sem af þessu hljótast fyrir okkar viðskiptavini” segir Þorvaldur.