Tómas Ellert Tómasson fyrrverandi bæjarfulltrúi Árborgar, segir falskan tón sleginn í Árborg í grein sinni á vefnum Sunnlenska.is í gær.
Tómas gagnrýnir þar formann bæjarráðs og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Árborg, Braga Bjarnason, fyrir sjálftöku, en að sögn Tómasar hækkuðu laun Braga um 210 prósent í fyrra.
Íbúafundur varðandi skuldavanda sveitarfélagsins var haldinn í dag þar sem Bragi ásamt bæjarstjóra Árborgar, Fjólu Steindóru Kristinsdóttur, svaraði fyrir stöðu fjármála sveitarfélagsins.
Einnig fóru þeir Róbert Ragnarsson og Magnús Kristjánsson, frá fyrirtækinu KPMG, yfir stöðuna og áætlanir til að snúa fjármálum Árborgar á betri veg.
Á fundinum kom meðal annars fram að uppsagnir innan Árborgar væru óhjákvæmilegar vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Tillaga um samstarf við KPMG var samþykkt í lok síðasta kjörtímabils, en að sögn Tómasar kusu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá gegn tillögunni.
„Í stað þess að ráðast strax í þá vinnu sem búið var að samþykkja í bæjarstjórn, þá var fyrsta verk nýs bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins að hækka laun formanns bæjarráðs um 210%, ofan á föst bæjarfulltrúalaun og þóknanir fyrir formennsku í fastanefnd og nefndum byggðasamlaganna. Laun og þóknanir sem skila formanni bæjarráðs yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði eða 18 milljónir króna á ári.“
Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í júní á síðasta ári að breyta launahlutfalli formanns bæjarráðs úr 21 prósenti upp í 65 prósent, en það bætist ofan á fastalaun hans sem bæjarfulltrúa.
Í grein sinni í gær kvaðst Tómas vonast til þess að ein sparnaðartillaga bæjarstjórnar Árborgar yrði að endurgreiða hluta af launum sínum.
„Vonandi fá íbúar að sjá á íbúafundi á morgun að ein sparnaðartillagan feli í sér að formaður bæjarráðs dragi til baka sjálftökuna og endurgreiði íbúum sveitarfélagsins oftökuna. Annað er að slá falskan tón í ráðdeildinni.“
Spurð hvort áform væru uppi um að skerða laun bæjarfulltrúa, á íbúafundinum í dag, sagði bæjarstjóri að allar þóknanir bæjarfulltrúa hefðu verið lækkaðar um 5 prósent, 1. mars síðastliðinn.
Í samtali við fréttastofu RÚV í dag sagði Tómas það ekki segja alla söguna.
Kvað hann lækkunina aðeins eiga við um laun hans sem bæjarfulltrúa, en ekki fyrir önnur störf svo sem formennsku hans í bæjarráði. Lækkun hjá Braga væri um 60 þúsund af heildarlaunum hans, að því gefnu að hann sé með 1,2 milljónir á mánuði, en lækkunin sé raunverulega aðeins um 17 þúsund krónur.