Óraunhæfar niðurskurðaraðgerðir Árborgar

„Öll okkar lán eru verðtryggð og hækka bara með hverjum …
„Öll okkar lán eru verðtryggð og hækka bara með hverjum mánuðinum sem líður út af verðbólgu,“ segir Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg. Samsett mynd

Ekki tókst að vernda þá hópa sem minnst mega sín í hagræðingaraðgerðum sveitarfélagsins Árborgar, að mati Álfheiðar Eymarsdóttur, bæjarfulltrúa Á-lista Áfram Árborgar, sem er samstarf Pírata, Viðreisnar og óháðra. 

Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun Árborgar voru samþykktar með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Bæjarfulltrúar Á-, B- og S-lista sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.

Álfheiður telur að ákveðnar niðurskurðaraðgerðir sem fram undan eru séu of óraunhæfar til þess að skila sér. Koma muni á daginn að ómögulegt verði að ráðast í þær. Hún telur einnig að arðsemin af sumum hagræðingartillögunum hafi verið ofmetin.

„Við erum tilneydd til þess að fara eftir þjóðhagsspá. Það er mín skoðun að þjóðhagsspáin sé óraunhæf, að þeim takist að ná verðbólgunni niður svona fljótt. Verðbólgan er enn níu prósent og það er desember,“ segir Álfheiður í samtali við mbl.is.

Ómögulegt að hlífa okkar minnstu bræðrum“

Fjár­hags­áætl­un Árborgar bygg­ir á aðgerðaáætl­un sem sveitarfélagið samdi við eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga, sem heyrir undir innviðaráðuneytið.

„Við í minnihlutanum komum í raun og veru ekkert að þeim samningaviðræðum. Við ýttum mikið á meirihlutann að reyna að fá aðeins lengri tíma heldur en til loka ársins 2026, þannig við þyrftum ekki að fara svona skarpt í þetta og gætum hlíft okkar minnstu bræðrum,“ segir Álfheiður.

Vinnan þung og „engir skemmtifundir“

Álfheiður nefnir í fundargerð bæjarstjórnar um hina nýsamþykktu fjárhagsáætlun að samvinnan að gerð fjárhagsáætlunar hafi almennt gengið vel, þrátt fyrir að vinnan hafi verið þung og „engir skemmtifundir“. 

Það sé langtímaverkefni að koma fjárhag Árborgar til betra horfs og það náist varla á næstu þremur árum. Áfram Árborg hafi komið með margar tillögur sem sumum hafi verið vel tekið en öðrum hafi verið „sópað út af borðinu eða lítið ræddar“.

Nefnir hún sem dæmi að meirihlutinn hefði mátt þrýsta verulega á eftirlitsnefnd sveitarfélaga til að fá sveigjanleika og meiri tíma til að koma fjármálunum í betra horf. Einnig hefði frekar mátt fresta fleiri verkefnum sem ekki eru lögbundin í stað þess að leggja álag á útsvar. 

Lagt væri yfirvinnu- og ráðningabann, formaður bæjarráðs fari úr 100% stöðugildi í 50% og  allir þjónustusamningar yrðu endurskoðaðir, svo eitthvað sé nefnt.

Skuldbundin við eftirlitsnefndina

„Við reyndum eins og við gátum að hlífa öryrkjum, eldra fólki, barnafjölskyldum, börnum og unglingum með sérþarfir og öðrum þeim sem reiða sig sérstaklega á þjónustu sveitarfélagsins. En það reyndist ómögulegt ef við ætluðum að standast skuldbindingar við eftirlitsnefndina.“ 

Álfheiður nefnir sem dæmi að nú verði gjald fyrir foreldra fyrir að sækja börn of seint í leikskóla 3.000 krónur fyrir hverjar 15 mínútur sem barnið er lengur en leikskólavist þess segir til um. Þá hafi einnig þurft að hækka verð á mat fyrir aldraða í sveitarfélaginu.

Hækkun útsvars um 10% komi beint við pyngju allra íbúa sveitarfélagsins á atvinnumarkaði.

Litla-Grikkland

Eins og mbl.is greindi frá í júlí samþykkti bæj­ar­ráð Árborgar þá sam­hljóða lán­töku að fjár­hæð 1,37 millj­arða til tveggja ára með það fyr­ir aug­um að fjár­magna sveit­ar­fé­lagið í gegn­um eign­ir í sölu­ferli. 

„Við erum Litla-Grikkland. Við erum að taka lán fyrir afborgunum lána. Öll okkar lán eru verðtryggð og hækka bara með hverjum mánuðinum sem líður út af verðbólgu,“ segir Álfheiður um skuldavanda sveitarfélagsins.

Hún telur skammsýni fyrir sveitarfélagið að selja byggingarland.

„Mér hefði fundist skynsamlegra fyrir framtíðina að halda þessu landi,“ segir Álfheiður og nefnir að þannig hefði sveitarfélagið getað fengið stöðugar tekjur til framtíðar.

Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúa Á lista, Áfram Árborgar, sem er samstarf …
Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúa Á lista, Áfram Árborgar, sem er samstarf Pírata, Viðreisnar og óháðra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert