Félagið Frigus hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sínu gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu í tengslum við sölu Lindarhvols á hlut ríkisins í Klakka. Í héraði voru ríkið og Lindarhvol sýknuð.
„Forsvarsmenn Frigusar telja að alvarlegir annmarkar hafi verið á söluferli Lindarhvols ehf. á hlutafé og nauðsamningskröfu í Klakka ehf. í október 2016. Þetta hafi komið berlega í ljós við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi þegar skýrslutökur fóru fram,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
„Forsvarsmönnum Frigusar þykir miður að héraðsdómur hafi ekki tekið tillit til sjónarmiða og röksemda félagsins er að þessu lúta. Að mati Frigusar er nauðsynlegt að Landsréttur leysi úr málinu, meðal annars í ljósi mikilvægis þess og fordæmisgildis enda liggur fyrir að stjórn og ráðgjafar Lindarhvols ehf. höfðu með höndum sölu á afar verðmætum ríkiseignum.“
Þá er einnig í tilkynningunni spjótunum beint að Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, en sagt er að enn gæti „undarlegrar tregðu hjá forseta Alþingis, stjórnvöldum þ.m.t. ríkisendurskoðanda við að afhenda greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, um starfsemi Lindarhvols ehf.“ Telur Frigus að þar kunni að vera upplýsingar sem styrkja málstað Frigusar fyrir dómi, en Sigurður sagði fyrir dómi að hann teldi ríkið hafa orðið af 530 milljónum króna með sölunni.
„Vegna alls þessa telja forsvarsmenn félagsins óhjákvæmilegt annað en að fá úrlausn æðra dómsvalds í málinu,“ segir að lokum í tilkynningunni.