Ákærður í Procar-málinu

Misferli Procar-bílaleigunnar á kílómetrastöðu 134 bifreiða er ástæða ákærunnar.
Misferli Procar-bílaleigunnar á kílómetrastöðu 134 bifreiða er ástæða ákærunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður á sjötugsaldri, Haraldur Sveinn Gunnarsson, sem var annar eigandi og framkvæmdastjóri bílaleigunnar Procar, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa falsa kílómetrastöðu á 134 bílum. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Var ekki viðstaddur þingfestinguna

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og saksóknari í málinu, staðfestir í samtali við mbl.is að Haraldur hafi sjálfur ekki verið viðstaddur þingfestinguna. Verjandi hans hafi hins vegar sagt að afstaða Haralds yrði sú sama og við rannsókn málsins, en Ólafur segir að á rannsóknarstigi hafi hann játað þá háttsemi sem honum er gefin samkvæmt ákæru, þó deilt væri um bótaupphæðina. Játning fyrir dómi verður þó ekki formleg fyrr en Haraldur mætir sjálfur fyrir dóminn.

Þar sem formleg játning liggur ekki fyrir hefur ekki enn verið ákveðið hvenær skil greinargerðar í málinu verður. Auk þess sem Haraldur er ákærður í málinu fara sex aðilar fram á bætur í málinu.

Rannsóknin hófst sumarið 2019

Embætti héraðssaksóknara hefur verið með málið til rannsóknar frá því sumarið 2019, en þá fjallaði Kveikur um að kílómetrastöðu fjölda bíla í eigu bílaleigunnar hafi verið breytt áður en þeir voru leigðir út til ferðamanna og á endanum seldir sem notaðir bílar til neytenda hér á landi. Hafði fyrrverandi starfsmaður bílaleigunnar stigið fram og upplýst um málið.

Procar var í 65% eigu Plat­in­um ehf., en það fé­lag er í eigu Har­ald­ar Sveins Gunn­ars­son­ar. Gunn­ar Björn Gunn­ars­son, bróðir Haraldar, var for­stjóri Procar og átti 35% hlut í fyr­ir­tæk­inu.

mbl.is og fleiri fjölmiðlar fengu á sínum tím að sjá gögn sem sýndu að aðgangur eins stjórnarmanns fyrirtækisins, sem ekki er ákærður í málinu, að kerfum bílaleigunnar hafði ítrekað verið notaður til að skrá lækkaða kílómetrastöðu bifreiða.

Sögðu upphaflega fyrrverandi starfsmann ábyrgan

Bíla­leig­an reyndi í upp­hafi að halda því fram að eini starfsmaður­inn sem hefði verið ábyrg­ur fyr­ir niður­færslu kíló­metra­stöðu bíl­anna væri hætt­ur störf­um. Það reynd­ist rangt og raun­ar var aðgang­ur fleiri starfs­manna notaður til þess að skrá lækkaðar kíló­metra­stöður. Viðurkenndi bílaleigan síðar að hafa skrúfað kílómetrateljara bíla kerfisbundið niður áður en þeir voru settir í sölu.

Procar var vísað úr Sam­tök­um ferðaþjón­ust­unn­ar strax eft­ir að svindlið var op­in­berað í frétta­skýr­ing­arþætt­in­um Kveik um miðjan fe­brú­ar­mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert