Unir niðurstöðum umboðsmanns

Ríkisstjórnarfundur 18.4 - Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Ríkisstjórnarfundur 18.4 - Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef í sjálfu sér ekk­ert út á þess­ar ábend­ing­ar umboðsmanns að setja á þessu stigi. Ég get al­veg unað þeim,“ seg­ir Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, í sam­tali við mbl.is. 

Í gær var greint frá því að umboðsmaður Alþing­is hefði lokið at­hug­un sinni í tengsl­um við til­kynn­ingu ráðuneyt­is­ins um birt­ingu vinnu­skjala og þagn­ar­skyldu sem teng­ist Lind­ar­hvols­mál­inu svo­kallaða. 

„Við brugðumst við og höf­um fengið síðan þá niður­stöðu að þess­ari at­hug­un er lokið. Jú, ég veiti því at­hygli að umboðsmaður set­ur málið í svona víðara sam­hengi með því að það kunni að vera til­efni til þess að ræða það á al­menn­ari nót­um hvenær stjórn­völd­um sé ekki óheim­ilt að veita aðgang þó að upp­lýs­inga­rétt­ur­inn standi ekki til þess að menn eigi rétt á því að fá aðgang,“ seg­ir Bjarni og á þar við hvenær stjórn­völd­um sé heim­ilt að op­in­bera upp­lýs­ing­ar sem að upp­lýs­inga­rétt­ur nær ekki yfir til þess að til dæm­is fjöl­miðlar hefðu aðgang að upp­lýs­ing­un­um. 

„Þessi sam­skipti hafa nú dá­lítið þrengt sig veru­lega niður í það að fjár­málaráðuneytið tel­ur að eft­ir mat þá kunni í ákveðnum til­vik­um að vera – að mati ráðuneyt­is­ins – óheim­ilt að op­in­bera upp­lýs­ing­ar. Það er kannski um það sem að þess­ar síðustu ábend­ing­ar snú­ast meðal ann­ars,“ seg­ir Bjarni. 

Ekki ágrein­ing­ur um hvaða regl­ur gilda

Í til­kynn­ingu umboðsmanns sagði að at­vik máls­ins „bendi til þess að al­mennt kunni stjórn­völd að skorta full­nægj­andi skiln­ing á þeim regl­um sem gilda um rétt al­menn­ings til aðgangs að vinnu­skjöl­um svo og heim­ild­um stjórn­valda til að birta þau um­fram skyldu.“

Því verður tekið til skoðunar hvort ástæða sé til að fjalla um þetta atriði með al­menn­um hætti.

„Ég held það gæti verið gagn að því að embættið myndi fara yfir mála­flokk­inn á breiðum grunni með al­mennri sam­an­tekt vegna þess að kraf­an um upp­lýs­ing­ar frá stjórn­kerf­inu er vax­andi. Það skipt­ir okk­ur sem að störf­um í stjórn­kerf­inu mjög miklu máli að það sé ekki ágrein­ing­ur um þær regl­ur sem um þetta eiga að gilda,“ seg­ir Bjarni. 

Ráðuneyt­inu ekki heim­ilt að birta grein­ar­gerðina

Þýða þessi mála­lok af hálfu umboðsmanns end­ur­skoðun á birt­ingu grein­ar­gerðar Sig­urðar Þórðar­son­ar, fyrr­ver­andi rík­is­end­ur­skoðanda?

„Nei, og ég lít ekki þannig á að þessi sam­skipti hafi raun og veru snúið að því. Held­ur sneru þess­ar at­huga­semd­ir að orðalagi í til­kynn­ingu frá fjár­málaráðuneyt­inu. Við höf­um gert breyt­ing­ar á orðalag­inu og mun­um mögu­lega gera það aft­ur í til­efni þess­ar­ar síðustu at­huga­semda,“ seg­ir Bjarni en í til­kynn­ingu umboðsmanns var bent á að þrátt fyr­ir breyt­ing­ar sé til­kynn­ing­in enn ekki fylli­lega í sam­ræmi við gild­andi rétt.

„Þetta er­indi sner­ist aldrei um skyldu ráðuneyt­is­ins til þess að birta. Við erum enn þeirr­ar skoðunar að at­vik­in í þessu máli séu þess eðlis að það sé rétt mat hjá okk­ur að fjár­málaráðuneyt­inu sé í raun­inni ekki heim­ilt held­ur að birta,“ seg­ir Bjarni að lok­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert