Ákjósanlegast er að Suðurnesjalína 2 verði loftlína. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Landsnets um greiningu á tjónnæmi vegna jarðvár.
Skýrslan var unnin af sérfræðingum frá EFLU og Landsneti en einnig voru fengnir í teymið sérfræðingar í áhættumati og hraunrennslisgreiningum frá Verkís. Þá var jafnframt leitað til Veðurstofu Íslands og Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá eftir umsögn.
Í tilkynningu frá Landsneti segir að góðar líkur séu á því að loftlínan muni geta staðið af sér hófleg hraunrennsli og sé muni standa betur af sér jarðskjálfta.
„Jarðskjálftar og jarðhreyfingar eru mun líklegri vá á línuleið á Suðurnesjum en hraunflæði á yfirborði vegna eldsumbrota. Ljóst er að loftlína mun standa mun betur af sér jarðskjálfta og aðrar jarðhreyfingar.
Góðar líkur eru á því að loftlínan muni geta staðið af sér hóflegt hraunrennsli verði gerðar ráðstafanir varðandi hraunflæðivarnir á völdum stöðum og staðsetning mastra valin með tilliti til staða sem margar gossprungur myndu leiða hraun að, sbr. rennslisleið að Vogavík og Vatnsleysuvík.“
Sveitarfélagið Vogar hefur ekki viljað veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir loftlínu. Vogar vilja jarðstreng en hin sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa þegar veitt Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir loftlínu.
Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að hjá sveitarfélaginu Vogum liggi nú til afgreiðslu umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir loftlínu.