Óttast að niðurskurður Árborgar bitni á fötluðum

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hefur áhyggjur af því að …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, hefur áhyggjur af því að niðurskurður í Árborg geti haft áhrif á hópa sem þurfa á aukinni þjónustu að halda. Ljósmynd/ÖBÍ

Öryrkjabandalag Íslands hefur áhyggjur af niðurskurðinum í Sveitarfélaginu Árborg. Telja samtökin að sparnaðaraðgerðir geti bitnað á þeim sem síst skyldi, t.a.m. fötluðum einstaklingum og öldruðum. Uppsagnir hjá sveitarfélaginu geti skert þjónustu við fatlað fólk.

„Málaflokkur fatlaðs fólks er lögbundinn þjónusta sveitarfélaga sem ríkið fjármagnar að hluta,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ í samtali við mbl.is.

„Það sem hætt er við að gerist í hagræðingarfasa sveitarfélags er að fatlaðir einstaklingar innan þess missi þjónustu og njóti þar með ekki réttinda sinna. Það er því brýnt að ríkið skoði vel hvort það þurfi ekki að tryggja fullnægjandi fjármagn til málaflokks fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum“.

Þuríður segir að fleiri sveitarfélög glími við rekstrarvanda og hætta sé á því að þjónusta sé skorin niður hjá þeim einstaklingum sem síst skyldi.

„Ég get vel skilið vandann við hagræðingu vegna rekstrarvanda sveitarfélaga, en það verður að vera tryggt að viðkvæmir hópar s.s. fatlað fólk, verði ekki fyrir barðinu á slíkum niðurskurði.“

Hún segir að niðurskurður sé ávísun á að réttindi þessara hópa skerðist, hvort sem þau séu fjárhagsleg, þjónustuleg eða samfélagsleg.

Málflutningurinn „algjörlega óþolandi“

Þuríður kveðst afar ósátt við máflutning ríkis og sveitarfélaga þar sem talað er um fatlað fólk sem þunga fjárhagsbyrði. Frekar ætti að skoða hvað kostar að taka mannréttindi af fólki? Og horfa til þessa hóps sem dýrmætan auð í okkar samfélagi.

„Það þarf að gæta að því að allflest fatlað fólk á erfitt með að rísa upp sér til varnar gegn ríki og sveitarfélögum,“ segir hún og bætir við að þessir einstaklingar standi höllum fæti gagnvart pólitíkinni og stjórnsýslunni.

„Þess vegna vildum við vekja athygli á þessu og biðla til sveitarfélaga sem eru í fjárhagsvanda og hagræðingarfasa að finna aðrar leiðir en að skera niður í þjónustu við fatlað fólk, sá hópur er ekki með breiðu bökin,“ segir hún.

„Svo er líklegt að ríkið þurfi að fjármagni betur þau verkefni sem það hefur úthlutað sveitarfélögum og eru lögbundin“.

Þjónusta við fatlað fólk vaxandi

„Þjónusta við fatlað fólk á öllum aldri verður og er stækkandi þáttur í þjónustu sveitarfélaga. Auk þess að fötluð börn og ungmenni þurfa þjónustu og stuðning inn í leik- og grunnskóla sem er lögbundin þjónusta,“ segir Þuríður.

„Þá er ótalin þjónusta í tómstunda- og íþróttastarfi sem oft situr á hakanum gagnvart fötluðum börnum og ungmennum.“

Hún segir að með uppsögnum í Árborg og öðrum sveitarfélögum geti hugsanlega orðið fækkun á fólki sem starfar við ýmis störf sem tengjast þjónustu við fatlað fólk, hvort sem um sé að ræða börn, ungmenni eða fullorðið fólk.

„Það þarf og á að styðja fatlað fólk svo þau eigi möguleika á að lifa mannsæmandi lífi og geti tekið þátt í samfélaginu, það er mikilvægt,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert