„Ég held að við séum bara rétt að byrja“

Arnar mar Ólafsson ferðamálastjóri Merking: Morgunblaðið/Eggert
Arnar mar Ólafsson ferðamálastjóri Merking: Morgunblaðið/Eggert Morgunblaðið/Eggert

Við þekkjum flest öll að sjá fulllestaða ferðamenn hjólandi á þjóðvegi 1, aðallega á sumrin en í auknum mæli inn á vor og haust líka. Þrátt fyrir nokkurn fjölda er þetta aðeins hluti þeirra hjólaferðamanna sem sækja landið heim og er hjólaferðamennska líklega rétt aðeins að byrja og mun vaxa mikið á komandi árum og áratugum samhliða aukinni áherslu á heilsu- og ævintýraferðamennsku. Þetta segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Hann telur tækifærin í þessari tegund ferðamennsku gríðarleg hér á landi, ekki síst í svokallaðri malahjólreiðum sem hafa undanfarinn áratug vaxið mikið á heimsvísu.

Arnar rifjar með blaðamanni upp þróun hjólaferðamennsku hér á landi. Áður fyrr hafi verið um nokkra ævintýramenn að ræða en nú í nokkra áratugi hafi verið nokkuð vinsælt hjá hjólaferðafólki að koma hingað til lands og fara hringveginn og stundum aðeins upp á hálendi. Aðrir hafi jafnvel eingöngu horft til hálendisins. Þá hafi líka í þó nokkurn tíma verið erlend fyrirtæki sem hafi boðið upp á hjólaferðir til Íslands. Um fjölbreyttar ferðir sé að ræða, en þó hafi oftast verið horft til götuhjóla og hópurinn hjólað mislangar dagleiðir og svo keyrt áfram að næstu dagleið. Jafnvel hafi leiðarvali verið hagað nokkuð eftir veðri og vindum. „Þetta var lengi vel ekkert of stórt í sniðum, en þetta er ferðamennska sem hefur verið lengi,“ segir Arnar.

Þróunin undanfarið heftur svo verið aukin aðkoma íslenskra fyrirtækja sem bjóða upp á ýmisskonar ferðir, bæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sem og lengri ferðir og þá oft á hálendinu eða um fjallaslóða. Til viðbótar séu komnir ákveðnir fjallahjólastaðir, hvort sem það sé nálægt Kirkjubæjarklaustri, í Hlíðafjalli eða Skálafelli.

Arnar segir hjólaferðamennsku vera að vaxa vítt og breitt um heiminn í takt við aukna vöruþróun í ferðamennsku og þá heilsubylgju sem sé í gangi. Ferðamálastofa sér fram á talsverða fjölgun ferðamanna á komandi árum og segir Arnar að með öllum fyrirvörum geti tala þeirra verið komin upp í 3,5 milljónir fyrir árið 2030, eða um tvöföldun miðað við fjölda þeirra í fyrra.

Varðandi samsetningu ferðamanna bendir Arnar á að ævintýrabragur Íslands sem ferðamannalands hafi verið að aukast og það sjáist meðal annars í áherslum Íslandsstofu í auglýsingum sínum. Segir hann að þessi ímynd lands fyrir ævintýragjarna ferðamenn hjálpi til varðandi hjólaferðamennsku og að hann telji að hjólaferðamennska muni hlutfallslega aukast umfram fjölgun ferðamanna á komandi árum. „Það er alls ekki ólíkleg sviðsmynd,“ segir hann.

Arnar segir að tækifærin í dag séu mjög mikil og að sínu mati ekki síst í malarhjólamennsku. „Það eru gríðarlega spennandi og fjölbreytt svæði sem henta vel fyrir malarhjólun og þar sé ég mikil tækifæri“ og bætir svo við: „Ég held að landið Ísland bjóði upp á svo mikil tækifæri í malarhjólreiðum. Bara Ísland sem áfangastaður hefur gríðarlegt aðdráttarafl og fyrir ævintýragjarna hjólara er þetta svolítil nýlenda.“

Nefnir Arnar sérstaklega að með malarhjólreiðar þá séu innviðirnir að stórum hluta nú þegar til staðar. „Malarvegirnir, göturnar og slóðarnir eru til.“ Hann segir svo stoðkerfið að hluta til vera til staðar, bæði varðandi gistingu, trúss og aðra þjónustu, en með gistingu helgist það aðeins af því hversu langt sé farið út fyrir hefðbundnar slóðir. „Þetta er því auðveld uppbygging,“ segir Arnar.

Nefnir Arnar að þó fleiri hjólarar sjáist nú til dæmis að Fjallabaki séu fjölmörg svæði á landinu þar sem fáir fari um en séu fullkomin fyrir malarhjólreiðar. „Við erum til dæmis með norður og norðausturhluta hálendisins. Náttúran þarna er óviðjanfanleg og það að hjóla á malarhjóli í Krepputungum og þar er geggjað, bara svo maður nefni dæmi,“ Segir Arnar.

Hann segir líka spennandi tækifæri með fjallahjólreiðar. Nefnir hann sérstaklega uppbyggingu svæða þar sem farið er um slóða og stíga á nokkuð grófara undirlagi en í malarhjólreiðunum. Hins vegar telur Arnar að uppbygging stórra fjallahjóla/fjallabrun svæða, líkt og er að finna víða til dæmis í Ölpunum þar sem notast er við skíðalyftur og fólk ferðast sérstaklega til að hjóla í, sé líklega fjarlægari möguleiki en að nýta núverandi stíga og vegi á hálendinu. „En það eru vissulega tækifæri,“ segir hann og nefnir á ný svæðið í Skálafelli og í Hlíðarfjalli.

Arnar bendir á að á undanförnum árum hafi líka tvær keppnir vaxið nokkuð hratt og að þær hafi hjálpað til við að auglýsa landið fyrir malarhjólun. Fyrst ber að nefna Rift keppnina sem haldin er að Fjallabaki, en hins vegar fjöldægrakeppnina Westfjords way challenge á Vestjförðum. „Ég held að við séum bara rétt að byrja,“ segir Arnar og tekur fram að hann telji öruggt að Vestfjarðarkeppnin sé komin til að vera, en nú á öðru ári hennar er löngu uppselt þrátt fyrir að keppnin sé fyrir nokkuð sérhæfðan hóp hjólara. Þá hafi keppendur í Riftinu verið allt að þúsund og með þeim komi einnig fjöldi annarra ferðamanna.

Segir Arnar ekki síður skipta máli hverjir hafi verið að koma í keppnirnar, en heimsfrægir hjólarar og ljósmyndarar hafa komið í báðar þessar keppnir og auglýst þær á samfélagsmiðlum. „Þetta eru heimsfrægir hjólarar sem gríðarlegur fjöldi fólks fylgist með. Afleidd áhrif þess að einhver svona frægur hjólari kemur hingað til lands eru gríðarlega mikil og erfitt að verðmeta þau, en þetta hefur mikið auglýsingagildi.“

Varðandi Vestfjarðarkeppnina segir Arnar að ef hún nái flugi geti það haft mikil áhrif á Vestfirði sem áfangastað almennt. „Maður hefur séð þannig gerst úti í hinum stóra heimi þar sem viðburðir sem þessir ýtir undir markaðssetningu svæða. Þetta er eitthvað sem gæti gerst þarna og ég vona það. Það hefur oft verið talað um að Vestfirðir séu ekki að fá eins mikinn fókus og þeir verðskulda, en við vitum hvað svæðið býður upp á. Gríðarleg náttúrufegurð og stórkostlegt svæð og svona viðburðir geta auðveldlega hjálpað til fyrir svæðið í heild sinni,“ segir Arnar.

Í ljósi þessara orða finnst blaðamanni rétt að spyrja hvort Arnar telji hjólaferðamennsku í raun geta orðið að einum af hornsteinum ferðamennsku á Vestfjörðum. „Já ég held að hjólaferðamennska geti orðið sterkur póstur ferðamennsku fyrir Vestfirði,“ svarar hann.

Bætir Arnar við að hjólaferðamennska hafi einnig á sér táknmynd sjálfbærni þar sem mikil virðing sé borin fyrir svæðunum sem farið sé um. Þetta ætti því að vera eftirsóttur markhópur þegar komi að því að tengja við eftirsótta náttúrufegurð.

Talandi um markhópa, þá er stundum talað um að sumir hjólaferðamenn skilji lítið eftir sig fyrir efnahagskerfið. Arnar segir það stundum geta verið rétt, en að hins vegar sé um mjög breiðan hóp að ræða þar sem sumir vilji bara hjóla um landið og nærast í vegasjoppum meðan aðrir komi hingað og vilji topp leiðsögn og gista á dýrustu hótelum og njóta dvalarinnar í botn. Þar á milli sé svo stór hópur í millistétt og efri millistétt sem vilji ferðast um á hjólum en einnig kaupa talsverða þjónustu og vörur. „En svo eru líka uppgötva landið ungir á hjólum, auglýsa landið og eru ekki ólíklegir að koma aftur síðar,“ segir Arnar.

Spurður út í þróun þjónustu og vöruframboði á komandi árum fyrir hjólreiðaferðafólk hér á landi segir Arnar að hann geri fastlega ráð fyrir því að bæði núverandi fyrirtæki sem séu með ferðir eða leigu á hjólum muni stækka sem og að ný komi inn á markaðinn. Hann segir hins vegar að líklega verði áfram stærstur hluti þessarar þjónustu í boði eða gerður út frá höfuðborgarsvæðinu og mögulega Akureyri. Veturinn spili þar inn í, jafnvel þótt alltaf sé reynt að auka hlut vetrarferðamennsku og dreifa henni betur um landi. Þá segir Arnar að líklega verði talsverð aukning í ýmisskonar stoðþjónustu við þessa ferðamenn og eigi það við um allt landið. Þar sé um að ræða gistingu, sölu á mat og drykk og jafnvel aðstoð við trúss og slíkt. Það geti þó orðið hluti af þjónustuframboði núverandi ferðaþjónustuaðila í stað þess að ný fyrirtæki séu stofnuð á hverjum stað.

Arnar er sjálfur ekki alveg ótengdur hjólreiðum, en hátt í 40 ár eru síðan hann tók þátt í sínum fyrstu hjólakeppnum hér á landi. Rifjar hann upp að á unglingsárum sínum hafi hann spilað badminton þar sem æfingar og keppnir voru yfir veturinn, en allt starf dottið niður um sumarið. „Ég var að leita að leiðum til að halda mér í góðu formi og þá voru götuhjólreiðarnar að byrja,“ segir hann. Meðal annars hafi hjólreiðaverslunin Örninn verið með lið og Einar Jóhannsson var þá lang sterkasti hjólreiðamaður landsins. „Ég fann að þetta átti við mig og tók þátt í keppnum á árunum 1983-84.“

Fókusinn fluttist hins vegar annað, en fyrir um 8-9 árum, þegar Arnar starfaði hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, ákvað hann að hóa saman í lið og skrá það í Wow cyclothon. „Við settum saman lið og þá kviknaði bakterían aftur og ég hef hjólað síðan ansi markvisst,“ segir Arnar. Það gekk þó ekki alveg stóráfallalaust fyrir sig því haustið 2015 lenti hann í alvarlegu slysi sem varð til þess að hann var í um tvö ár að jafna sig. Það stoppaði hann þó ekki og fór hann aftur að hjóla 2017-18 og hefur ekki stoppað síðan. „Ég er ekki eins sterkur og ég gæti verið vegna slyssins, en ég næ samt að hanga í ágætis hjólurum,“ segir hann glettinn. „Ég er í dag að hjóla með Tindi og hef haldið mig við götuhjól, en hef líka kíkt á mölina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert