„Afdrifaríkt símtal og ég hef ekki stoppað síðan“

Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Undanfarin ár hefur hjólasportið verið í mikilli uppbyggingu á Akureyri og ekki síst í kvennahjólreiðum. Ein af þeim sem hefur verið burðarásinn í því norðan heiða er Hafdís Sigurðardóttir hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar, en hún er einnig þekkt sem ein þeirra sem eru á bak við hópinn Akureyrardætur. Hafdís er núverandi Íslandsmeistari og bikarmeistari í bæði götuhjólreiðum og tímatöku. Þótt Hafdís hafi alla tíð verið mikið í íþróttum og komið af íþróttaheimili var ekki alltaf augljóst að hún myndi leggja hjólreiðar fyrir sig. Var það reyndar ekki fyrr en hún fékk óvænt símtal fyrir átta árum síðan að boltinn fór almennilega að rúlla og í dag snýst daglegt líf að stórum hluta í kringum hjólið og allt sem því tengist.

Hafdís er fædd og uppalin á Akureyri og hefur búið þar alla tíð fyrir utan fjögur ár fyrir sunnan þegar hún lagði stund á háskólanám. Eins og fyrr segir snerist fjölskyldulífið mikið um íþróttir, en Hafdís rifjar upp að bæði mamma hennar og fósturpabbi hafi verið í fótbolta auk þess sem systkini hennar og stórfjölskylda svo gott sem öll voru á fullu í allskonar boltasporti. „En ég tók u-beygju og fór í sundið,“ segir Hafdís sem varði barna- og unglingsárunum í sundlauginni. „Ég segi oft að ég sé alin upp í sundlauginni við að horfa á bláan botninn,“ en Hafdís segir að sú reynsla hjálpi oft mikið til við andlega þáttinn hjólreiðunum þar sem hjólreiðar kalli oft á að halda fókus í langan tíma.

Hún hætti þó sjálf að æfa sund, en en var alltaf að kenna það fyrir norðan og er í dag með sundnámskeið fyrir 1-5 ára börn sem hún hefur verið með í tæplega 20 ár. Samhliða því að þjálfa er hún þó í allskonar æfingum og keppnisskapið er klárlega til staðar. „Þegar ég hætti í sundinu fer ég í ræktina, en er samt alltaf að keppa. Tek þátt í Þrekmeistaranum og allt sem ég geri þá er ég alltaf mætt í keppnir,“ segir hún hlægjandi. „Ég var til dæmis dregin í kraftlyftingamót af einhverjum þjálfara og sagði bara já já.“

Árið 2010 flytur hún suður í nám og kláraði BS í íþróttafræði, diplóma í lýðheilsu og meistaranám í menntunarfæðum. Hafdís segir að á þessum tíma hafi hún alltaf stundað einhverja heilsurækt, en árið 2013 skráði hún sig í þríþrautarhóp hjá Kareni Axelsdóttur og Vigni XXXXXXXX. „Ég kaupi þá mitt fyrsta hjól og keppi í þríþraut þarna um sumarið,“ segir hún. Ári seinna eignast hún hins vegar dóttur sína og hættir í þríþraut og er takmarkað að hjóla eða hlaupa. Rifjar hún einnig upp að á þeim tíma hafi mjög fáir verið að hjóla fyrir norðan og hún hafi bara vitað um eina aðra konu sem var að hjóla eitthvað af viti í bænum.

Allt breyttist þó nokkuð óvænt sumarið eftir, árið 2015, þegar hún var í fæðingarorlofi og fékk símtal frá Freydísi Hebu Konráðsdóttur. „Hún biður mig um að koma með í Wow cyclothon eftir tvo daga. Hún hélt að hún væri að hringja í aðra Hafdísi, en ég á alnöfnu hér á Akureyri sem er í frjálsum íþróttum. Ég ákvað að slá bara til,“ segir Hafdís um upphafið af þeim mikla hjólaáhuga sem fylgdi í kjölfarið. „Ég fann pössun og kynntist svo nýju fólki og ferðalag okkar Freydísar byrjaði þarna,“ segir hún og bætir við: „Þetta var mjög afdrifaríkt símtal og ég hef ekki stoppað síðan í hjólastússi.“ Hafa þær hafa síðan verið samstíga í fjölmörgu hjólatengdu og uppbyggingu íþróttarinnar á Akureyri.

Hafdís fór eftir þetta að hjóla sér til skemmtunar og taka þátt í einhverjum keppnum á Norðurlandi, en var samhliða því einnig að hlaupa eitthvað. Hún eignast svo seinna barn sitt sumarið 2016. Hjólaáhuginn kraumaði enn undir niðri og þær Freydís ákváðu um veturinn 2017/18 að setja saman kvennalið í cyclothonið fyrir komandi sumar og var það skráð undir merkjum Akureyradætra.

Þær héldu kynningarfund fyrir verkefnið og létu fréttast um bæinn að þetta stæði til. Hafdís segir að auk þeirra hafi átta sæti verið laus og þau fylltust um leið þarna í kringum áramótin. „Allar ætluðu að æfa vel fyrir þetta og margar voru að fara vel út fyrir þægindarammann.“ Þá segir hún að þær hafi viljað gera hlutina frá A-Ö og þannig hafi til dæmis ein þeirra tekið að sér að smíða kerruna undir hjólin frá grunni. „Þetta var skemmtilegt verkefni sem við höfum haldið á lofti síðan þótt það hafi verið á öðrum vettvangi en í cyclothoninu. Allar konur að hjóla á Akureyri mega vera Akureyrardætur.“ Segir hún þær Freydísi vera að reyna að slíta sig aðeins frá þessu verkefni þannig að aðrar geti tekið við keflinu, en undir þessum merkjum er til dæmis farið í samhjól og reynt að hvetja konur til að hjóla saman. „Þetta er allt annar heimur en þegar ég byrjaði fyrir rúmlega fimm árum,“ segir Hafdís hlægjandi og er greinilega sátt hversu mikil þróun hefur orðið í kvennhjólreiðum fyrir norðan á stuttum tíma.

Á þessum tíma bættist einnig Silja Rúnarsdóttir í hópinn með Freydísi og Hafdísi og fóru þær að hjóla með hópi með rúmlega 50 ára körlum. Segir hún „þá gömlu“ eiga góðan þátt í formi þeirra þriggja þar sem þær hafi verið píndar áfram á þessum tíma.

Þær þrjár ákváðu um mitt sumarið 2018 að þær vildu leggja meiri áherslu á keppnir og taka skrefið lengra. Töluðu þær við Ingvar Ómarsson, margfaldan Íslandsmeistara í hjólreiðum, og fengu hann til að verða þjálfarann sinn. Hefur hann allar götur síðar þjálfað Hafdísi.

Settu þær upp það plan að mæta í öll bikarmót árið 2019 sem og Íslandsmótið. „Og þá var ekki aftur snúið,“ segir Hafdís. Rifjar hún upp að það hafi verið ákveðin skuldbinding að taka þetta skref, en á sama tíma hafi þetta verið mjög skemmtilegt og þær allar þrjár ferðast saman á keppnirnar fyrir sunna. „Þetta var í raun vinkonuhelgi og húsmæðraorlof þegar maður fór á keppnir,“ segir Hafdís glöð í bragði. „Það var auðvitað hellings vinna í kringum þessi ferðalög, en þau gáfu ótrúlega mikið.“

Æfingaálagið var nokkuð bratt til að byrja með og rifjar hún upp að hafa sopið hveljur þegar þær sáu fyrstu drög að æfingaplani sem Ingvar sendi á þær. „Hvernig átti ég að koma þessu fyrir í dagskránni? Ég var í 100% vinnu og með tvö ung börn og allt tengt því.“ Niðurstaðan var að reyna að koma þessu fyrir snemma dags. „Á þessum tíma æfði ég alla morgna og svo fór maður að stilla vekjaraklukkuna aðeins fyrr til að ná aðeins fleiri mínútum.“

Formið fór samhliða fleiri og skipulögðum æfingum hratt upp á við og hápunktur sumarsins var þriðja sætið á Íslandsmótinu í Skagafirði. Eftir sumarið voru þær allar staðráðnar að halda áfram og var aftur sett vel inn í æfingabankann um veturinn. Kepptu þær allar saman faraldursárið 2020 og náði Hafdís fjórum sinnum öðru sæti á bikarmótum en varð aftur í þriðja á Íslandsmótinu á eftir Ágústu Eddu Björnsdóttur og Bríeti Kristý Gunnarsdóttur.

Árið 2021 ákveður Freydís að hægja á en Hafdís og Silja Rúnars. héldu áfram á fullu og segir Hafdís það hafa skipt miklu að hafa einhvern með sér til að halda sér við efnið og ekki síður þegar það eru hennar bestu vinkonur. Hún ákveður hins vegar að endurorða þessa lýsingu. „Þær eru ekki bara vinkonur, heldur eins og fjölskyldur, það er þannig samgangur á milli hjá okkur,“ segir Hafdís.

Um mitt þetta ár ákveður svo önnur Akureyrardóttir, Silja Jóhannesdóttir, að stíga upp og færa sig úr B-flokki, þar sem hún hafði náð góðum árangri, og færa sig á miðju tímabili yfir í Elite-flokkinn. Hafði Hafdís þá þegar náð sínum fyrsta sigri í Elite-flokki á Reykjanesmótinu og bætti síðar á árinu við sigri í tímatökumóti. Á Íslandsmótinu endaði hún í öðru sæti, á eftir Silju Jóh. Sem var aðeins í sinni annarri keppni í Elite-flokki.

Þetta ár var þó ekki stóráfallalaust fyrir Hafdísi því hún slasaðist í krassi í Reykjanesmótinu þó hún hafi náð að sigra mótið. Var hún með rifinn liðbönd, en mætti samt á keppnislínu tveimur vikum síðar. Viðurkennir Hafdís að þetta sumar hafi verið mjög krefjandi andlega og fyrir heimilið. Þannig hafi hún verið nokkuð mikið verkjuð og mikið í sjúkraþjálfun og svo hafi hún tapað Íslandsmeistaratitlinum eftir miklar æfingar um veturinn. „Sumarið kenndi mér ótrúlega margt um mótlæti.“

Í fyrra var svo árið þar sem Hafdís náði langþráðum draumi og tók loks Íslandsmeistaratitilinn, auk þess að sigra tvö önnur bikarmót. Þá var hún einnig komin af stað almennilega í tímatöku á tímatökuhjóli og sigraði hún allar keppnir ársins þar, bæði í bikar og Íslandsmótið.

Íslandsmótið gekk þó ekki stóráfallalaust fyrir sig, því hálftíma fyrir ræsingu uppgötvaði hún að ekkert rafmagn var á gírunum. Sem betur fer reddaðist hleðslutæki, en það varð til þess að hún mætti tveimur mínútum fyrir ræsingu og ekki búin að hita upp, en þennan dag var veðrið frekar ógeðslegt og mikill mótvindur fyrri hluta keppninnar. Endaði hún með að slíta frá aðalhópnum með Ágústu og Silju Rúnars. og svo að slíta frá þeim í aðalbrekkunni þar sem hún gaf allt í botn. Dugði það til þess að hún náði að hjóla ein í mark á Mývatni.

Auk þeirra fjögurra hefur sú fimmta frá Akureyri einnig verið að taka þátt í Elite-flokki, en það er Sóley Kjerúlf Svansdóttir. Hins vegar voru þær Hafdís og Silja Jóh. ekki liðsfélagar síðasta sumar, þar sem Silja keppti með Cube-liðinu. Spurð um þetta segir Hafdís skýringuna eðlilega. „Við erum báðar með jafn mikið keppnisskap og þá getur verið erfitt að vera liðsfélagar,“ segir hún en bætir því við að þær hjóli nú samt reglulega samana fyrir norðan. Þetta getur hins vegar verið staðan þegar um liðsíþrótt er að ræða, sem jafnframt er líka einstaklingsíþrótt.

Síðustu þrjú ár hafa þó ekki bara verið keppnir hér heima hjá Hafdísi, því hún var ein þeirra sem keppti á HM í Imola á Ítalíu árið 2020 og svo EM í Trento á Ítalíu árið 2021 og EM í Münich í fyrra. Hún segir þessar keppnir hafa verið rosalega upplifun og skemmtilegt að fá þessi tækifæri. Rifjar hún upp að þegar hún fékk símtal og var spurð fyrst um að koma til Imola hafi hún ekki einu sinni hugsað sig um eða rætt við manninn sinn eða athugað með vinnuna. „Ég sagðist bara ætla að fara, maður veit ekki hversu oft maður fær svona tækifæri.“

Hún viðurkennir að keppnir sem þessar séu rosaleg brekka og að þó að hún og íslensku stelpurnar hafi verið langt frá því að keppa um einhver verðlaunasæti sé þetta kveikjan að því að vilja gera betur og ná lengra.

Þegar Hafdís og Akureyrardæturnar byrjuðu að mæta í Elite-keppnirnar var Ágústa Edda sú sem var með höfuð og herðar yfir aðrar í kvennakeppnunum í götuhjólreiðum. Hafdís segir það hafa kveikt í keppnisskapinu í sér og hún hafi frá upphafi alltaf stefnt að því að ná að verða betri en Ágústa. „Hún er algjör fyrirmynd í sportinu. Hún er ekki 20 ára og svo er hún með þrjú börn þannig að ég sagði við mig að ég gæti þetta líka og það var rosalega mikil viðurkenning að sigra hana í fyrsta skiptið,“ segir Hafdís. „Hún er stór ástæða af hverju kvennaflokkurinn er á þeim stað sem hann er á í dag.“

Rifjar Hafdís upp að í fyrstu keppnunum sem Akureyrardætur mættu virkilega tilbúnar til keppni hafi þær hjólað með Ágústu og fleirum til að byrja með, en svo hafi Ágústa í raun bara getað ákveðið hvenær hún vildi skilja aðra eftir. „Það varð svo stórt stökk þegar við gátum virkilega farið að keppa við hana og halda í við hana,“ segir Hafdís. Þannig minnist hún á Skjálfandamótið þegar hjólað var frá Akureyri á Húsavík, en þá ræstu konur í Elite með körlum í B-flokki. Þegar komið var upp Víkurskarðið voru þær Ágústa einu konurnar í fremsta hópi. „Mér fannst ég hafa sigrað mótið að komast þar upp með henni,“ segir Hafdís hlægjandi.

Þegar Akureyrardætur voru svo þrjár og gátu þannig komið með liðataktík á móti Ágústu, sem einnig var með Bríeti í liði, fóru keppnir að breytast að sögn Hafdísar. „Við hlægjum að sumu í dag sem við prófuðum, en maður prófaði sig áfram og gerði vitleysur.“ Minnist hún sérstaklega á að ljóst hafi verið að Ágústa vildi fjölga konum á efsta stigi og að hún og fleiri hafi reglulega fengið hrós frá Ágústu sem skilaði sér vel sem hvatning til síðari tíma.

Ágústa slasaðist svo árið 2021 og missti af nokkrum keppnum. Þar sem Ágústa hafði verið ákveðinn stjórnandi í kvennahópnum segir Hafdís að í þeim keppnum hafi mikið breyst og þær hinar hafi farið að prófa allskonar hluti sem þær þorðu ekki áður. Síðan hafi það haldist og nú sé til staðar sjálfstraust hjá fleirum til að prófa ýmsar útfærslur og árásir og fleira.

Þó tímataka hafi ekki alltaf verið á radarnum hjá Hafdísi segir hún að sinn helsti styrkleiki sé úthald í lengri tíma, eitthvað sem komi frá þeim tíma sem hún var að synda lengri vegalengdir í sundi. „Allt undir 20 sekúndur er leiðinlegt fyrir mig,“ segir hún hlægjandi. Spurð hvort hún ætli þá að setja aukinn fókus á tímatöku og jafnvel lengri keppnir eins og malarkeppnis segir hún að hún sé alltaf mjög spennt fyrir tímatöku. „Þetta er svo mikil keppni við sjálfan þig og hausinn. Mér finnst þetta mjög skemmtileg og liggur alveg fyrir mér.“ Ætlar hún að mæta í öll tímatökumót ársins sem og götuhjólreiðamót.

Varðandi mölina er hins vegar smá vandamál. „Ég er algjör malbiksrotta og hef varla hjólað á öðru en malbiki.“ Hún segist hins vegar hafa fengið sér malarhjól í haust og aðeins verið að prófa það. Hún segir vegalengdina heilla mikið í malarkeppnum og að hún ætli allavega að prófa það í Riftinu í sumar.

Þegar komið er í efsta styrkleikaflokk í hjólreiðum kallar það á mikinn tíma í æfingar. Hafdís segist sjálf verja um 12 til 16 klukkustundum á viku í æfingar en svo bætast við teygjur og rúlluæfingar. Þá hafi hún farið þrjár vikur erlendis að hjóla í vetur og vor og þar varði hún um 35 klukkustundum hverja viku á hjólinu.

Til að púsla þessu öllu saman hefur Hafdís þurft að breyta til í sínu lífi, en þegar hún hóf hjólreiðar kenndi hún í grunnskóla í fullri vinnu. Það passaði illa með æfingum og að sjá um heimili og börn. Segist hún nú vera í pásu frá kennslunni, en í staðinn hefur hún verið með ýmisskonar þjálfun, bæði í líkamsræktarstöð og í fjarþjálfun. Þá opnaði hún ásamt Freydísi vefverslunina pedal.is sem sérhæfir sig í hjólreiðafatnaði fyrir konur.

Hafdís þakkar einnig fjölskyldunni fyrir að geta staðið í þessu. „Ég væri aldrei að æfa eins og ég er að gera og mæta í keppnir og ferðir erelndis nema ég væri með brjálað stuðningsnet frá foreldrum og systkinum.“ Nefnir hún að bæði börnin hennar æfi þrjár íþróttir og maðurinn hennar vinni einnig mikið. Þá hjálpi til að tvö systkina hennar og móðir búi í sama hverfi og hún á Akureyri.

Segir hún alveg ljóst að hún nái ekki öllu því sem hún vildi gera með börnunum, en hún horfi á það þannig að hún sé að vera góð fyrirmynd fyrir þau þannig að þau sjái hversu langt þau geti náð, „jafnvel fram eftir aldri.“ Þrátt fyrir þau orð segir hún lífið að miklu leyti snúast um æfingar barnanna, sínar eigin æfingar og að fylgjast með íþróttaviðburðum, en beint eftir viðtalið var hún einmitt á leið upp í Hlíðarfjall með börnin á Andrésar Andar leikana. Fyrir utan tíma með fjölskyldunni segist hún einnig ekki finnast hún vera að fórna neinu fyrir tímann á hjólinu. „Mér finnst þetta langt um skemmtilegast og ég þoli ekki orðið fórna. Ég er ekki að fórna neinu fyrir mig persónulega, hvort sem það er djammið eða utanlandsferði, ég vel hjólið frekar,“ segir Hafdís að lokum.

Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hjólreiðakona Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert