Haraldur Sveinn Gunnarsson, meirihlutaeigandi í Procar-bílaleigu, játaði skýlaust brot sín í Héraðsdómi Reykjavíkur um að hafa falsað mælastöðu á vel á annað hundrað bíla áður en þeir fóru í endursölu. Þetta gerði hann við fyrirtöku í málinu.
Héraðssaksóknari fer fram á 1-2 ára skilorðsbundinn að hluta eða öllu leyti en dómsuppkvaðning stendur ein eftir í málinu. Í ákærunni kemur fram að í það heila hafi verið farið fram á um 15 milljónir króna í skaðabætur. Héraðssaksóknari féll hins vegar frá bótum í málinu þar sem eigandi hafði þegar samið við 122 af þeim 134 einstaklingum sem málið náði til.
Haraldur Sveinn sem er á sjötugsaldri er ásakaður um að hafa bæði átt við mæla bifreiðanna en auk þess að hafa breytt upplýsingum í tölvu um akstursstöðu bifreiðanna.
Brotin áttu sér stað á árunum 2014-2018. Breytingin sem gerð var á bílunum var allt frá um tvö þúsund kílómetrum upp í 52.130 kílómetra, en breyting flestra bílanna er á bilinu 10 til 40 þúsund kílómetrar.
Héraðssaksóknari gerir kröfu um eins til tveggja ára skilorðsbundinn dóm að hluta eða öllu leyti. Fram kom í máli Ólafs Þórs Haukssonar, héraðssaksóknara að tekið var tillit til þess að alllangt er síðan brotin áttu sér stað auk þess sem eigandinn hafði þegar samið um bætur við fórnarlömbin að stærstum hluta.
Verjandinn Gestur Gunnarsson gerði kröfu um að refsing verði felld niður en til vara að lægsta mögulega refsing verði höfð til hliðsjónar. Þá sagði verjandinn fyrir dómi að Haraldur hafi boðist til að greiða málskostnað úr eigin vasa.
Sagði verjandi Haraldar að hann hefði stigið til hliðar í rekstri fyrirtækisins árið 2019 þegar málið kom upp. Hann er enn meirihlutaeigandi en að öðru leyti hafi hann ekki haft afskipti af rekstri fyrirtækisins.