Krabbameinsfélagið úthlutaði í gær samtals 71 milljón til krabbameinsrannsókna úr vísindasjóði sínum.
Tólf rannsóknir voru styrktar um 71,1 milljón króna. Fjórar nýjar rannsóknir hlutu styrki og átta rannsóknir hlutu framhaldsstyrki.
Auk þess var í fyrsta sinn úthlutað styrkjum úr Rynkeby-sjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Tvær rannsóknir voru styrktar samtals um 12,9 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.
Félagið hefur frá 2017 samtals veitt rannsóknarstyrki fyrir 455,5 milljónir.
Sjóðurinn er fjármagnaður með styrkjum frá almenningi og fyrirtækjum í landinu. Krabbameinsfélagið leggur áherslu að félagið styrki rannsóknir tengdar forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga og rannsóknir tengdar börnum og fullorðnum.
Áskoranir tengdar fjölgun krabbameinstilvika og fjölgun lifenda hér á landi á næstu árum séu mjög stórar og því brýnt að möguleikar til vísindarannsókna séu góðir.