Sýslumaður þegir þunnu hljóði

Í Reykjanesbæ býr fjöldi útlendinga, þar á meðal margir hælisleitendur. …
Í Reykjanesbæ býr fjöldi útlendinga, þar á meðal margir hælisleitendur. Sýslumaður þar hefur gert pólskri fjölskyldu að koma sér út af heimili sínu á föstudag eftir að hús hennar var selt nauðungarsölu fyrir brot af markaðsvirði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í samráði við ráðuneytið gefum við því miður ekki neinar frekari upplýsingar um þessa nauðungarsölu,“ var svarið hjá lögfræðideild embættis sýslumanns Suðurnesja þegar mbl.is falaðist eftir viðtali við sýslumann um nauðungarsölumál sem vakið hefur mikla athygli síðasta sólarhringinn – pólskri fjölskyldu verður kastað út af heimili sínu á föstudag í kjölfar nauðungarsölu í september í fyrra.

Eins og RÚV fjallaði um seldi sýslumaður húsið langt undir markaðsverði og neitaði aukinheldur að tjá sig um málið, hvort tveggja við RÚV og nú einnig við mbl.is. Eins og fram kom í fréttum í gær hafði sonurinn í fjölskyldunni, Jakub Polkowski, keypt húsið gegn staðgreiðslu eftir að hann fékk bætur fyrir læknamistök. 

Hafði Jakub ekki greitt reikninga vegna heits vatns, trygginga eða fasteignagjöld í nokkurn tíma og höfðu þær skuldir safnast upp í vel á þriðju milljón samkvæmt umfjöllun RÚV. Var húsið að lokum sett á nauðungarsölu án þess að Jakub eða fjölskylda hans hefðu sig í frammi vegna ferlisins. Var það að lokum selt á þrjár milljónir, en samkvæmt sölumati sem RÚV sýndi var húsið metið á yfir 50 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka