Bæjarstjórn Voga hefur samþykkt lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins, en sveitarfélagið og Landsnet hafa lengi deilt um línuleiðina sem Landsnet vildi fara. Vildi sveitarfélagið breyta leiðinni og hafa línuna í jörð. Niðurstaðan núna er að fara í uppbyggingu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu, en á móti verður Suðurnesjalína 1 tekin niður í öllu sveitarfélaginu og lögð í jörð.
Þetta var meðal þess sem kom fram á bæjarstjórnarfundi sveitarfélagsins sem sýndur var í beinu streymi nú í hádeginu.
Samþykkti bæjarstjórnin framkvæmdarleyfið samhljóða, en með fyrrnefndum fyrirvara sem útlistaður var nánar í máli forseta bæjarstjórnar.
Sagði hann að ósætti sveitarfélagsins og Landsnets hafa stafað af sjónrænum áhrifum af nýrri og stærri línu við hlið núverandi línu. Hins vegar væri ljóst að frekari deilur um línuleiðina myndu frekar tefja nauðsynlegar úrbætur á raflínuneti Landsnets á Reykjanesi og mögulega hamla uppbyggingu og raforkuöryggi á Reykjanesi.
Eins og fyrr segir á að taka Suðurnesjalínu 1 í öllu landi sveitarfélagsins og leggja hana í jörð á næstu 25 árum. Komi hins vegar til samkomulags við stórnotanda þá verði línan lögð í jörð fyrr. Þá sé gert ráð fyrir því að strax og framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 er lokið verði hluti af Suðurnesjalínu 1 strax tekinn niður og línan lögð í jörð við Reykjanesbraut. Er þar horft til þess hluta sem liggi næst Reykjanesbraut og Vogum, eða um 5 km kafla í austurátt frá Grindavíkurvegi.
Með þessu er ætlunin að ekki verði tvær háspennulínur í lofti, en á sama tíma að afhendingaöryggi raforku verði aukið til muna.
Klukkan 13:00 munu Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, skrifa undir samkomulag um lagningu línunnar. mbl.is mun flytja frekari fréttir af fundinum síðar í dag.