„Fer að verða eins og heimilisköttur“

Lögreglustjóri segir rostunginn á Sauðárkróki minna á heimiliskött.
Lögreglustjóri segir rostunginn á Sauðárkróki minna á heimiliskött. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson

„Hann fer að vera eins og heimilisköttur,“ segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi Vestra, um rostunginn sem snúið hefur aftur á bryggjuna á Sauðárkróki.

Rostungurinn, sem hreiðraði um sig við bryggjuna fyrir helgi, situr nú uppi á grjótgarði í makindum sínum. Þó telur Birgir mikilvægt að fólk sýni skynsemi og nærgætni nálægt dýrinu, en margir hafa lagt leið sína að bryggjunni síðustu daga til þess að bera rostunginn augum.

Vilja ekki að hann fari á ferðina 

„Við höfum smá áhyggjur af því að hann fari á ferðina,“ segir Birgir í samtali við mbl.is. Hann segir að dæmi séu um það að rostungar fari á flakk og valdi skemmdum á bátum. 

„Þetta er ekki alveg einfalt. Þetta er smábátahöfn og bátarnir eru geymdir þarna og það er ekki hægt að koma þeim undan. Þetta eru skepnur sem komast upp í svona litla báta,“ segir Birgir að lokum, en lögreglan mun halda áfram að fylgjast grannt með ferðum rostungsins sem gert hefur sig heimakæran við bryggjuna á Sauðárkróki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka