Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, telur Sigurð Þórðarson, fyrrverandi settan ríkisendurskoðanda, ekki hafa brotið lög er hann sendi greinargerð sína til annarra en embættis ríkisendurskoðanda. Segist hún ekki hafa heyrt haldbær rök fyrir lögbroti.
Sigurður var settur ríkisendurskoðandi til að endurskoða Lindarhvol ehf. og hafa eftirlit með framkvæmd samnings milli Lindarhvols ehf. og fjármálaráðuneytisins þar sem þáverandi ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, var vanhæfur til þess vegna fjölskyldutengsla við stjórnarmann einkahlutafélagsins. Gegndi Sigurður þessu hlutverki frá 29. apríl 2016 til sumars 2018, en deilt er um hvenær setu hans í því embætti nákvæmlega lauk.
Á umræddum tíma vann Sigurður greinargerð um eftirlit með samningi fjármálaráðherra og Lindarhvols ehf. og sendi hann hana til Alþingis, fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands, Umboðsmanns Alþingis, forseta Alþingis og embættis ríkisendurskoðanda. Mikil leynd hefur ríkt um greinargerðina en Þórhildur Sunna birti almenningi hana í byrjun mánaðar.
Deilt hefur verið um hvort Sigurður hafi brotið lög þegar hann sendi greinargerð sína til annarra en embættis ríkisendurskoðanda. Að mati Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda fer dreifing hennar í bága við lög.
Sigurður segist þó ekki hafa brotið lög.
„Eins og ég hef haldið fram þá liggja fyrir nokkur lögfræðiálit til staðfestingar á því að þetta skjal eigi heima fyrir augum almennings og ég er algjörlega fylgjandi þeirri niðurstöðu,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is og bætir við:
„Nú er það búið og gert. Þannig að ég er á því að við ættum frekar að einbeita okkur að efni þessarar greinargerðar og fara ofan í kjölinn á því hvers vegna ber svona mikið á milli.“ Vísar Þórhildur Sunna þannig til skýrslu ríkisendurskoðunar um Lindarhvoll ehf. sem var birt í apríl 2020. Ríkisendurskoðun gerir þar engar athugasemdir við störf stjórnar félagsins eða rekstur þess, er það ólíkt niðurstöðu greinargerðar Sigurðar.
Þannig að þú tekur þá hvorki undir orð dómsmálaráðherra né ríkisendurskoðanda um að lög hafi verið brotin?
„Ég á eftir að heyra nákvæmlega hvaða lög það eru sem að voru brotin satt best að segja. Ég væri til í að einhver myndi nákvæmlega benda mér á hvaða ákvæði er átt við og hvernig birting greinargerðarinnar á að hafa farið í bága við þau lög. Ég hef ekki heyrt nein haldbær rök fyrir því.“
Ríkisendurskoðun hefur borið 3. málsgrein 15. greinar laga um ríkisendurskoðun og endurskoðun ríkisreikninga fyrir sig og vísað til þess að greinargerðin sé vinnuskjal. Þórhildur Sunna segir lagaákvæðið ekki endilega banna birtingu greinargerðarinnar:
„Það stendur ekki að það megi ekki birta hluti. Það stendur að ríkisendurskoðandi getur ákveðið að. Þetta er ekki svona klippt og skorið. Það stendur hvergi að það sé bannað að senda greinargerðir ríkisendurskoðanda, sem er settur, til annarra en ríkisendurskoðunar sem stofnunar. Það liggur alls ekki ljóst fyrir að það hafi eitthvað lögbrot átt sér stað. Bara alls ekki.“
Tólf dagar eru síðan greinargerðin var birt almenningi. Eftir birtinguna óskaði stjórnarandstaðan eftir að þing yrði kallað saman til að ræða greinargerðina. Stjórnarmeirihlutinn féllst ekki á það.
Skiptar skoðanir eru um hvort greinargerðin sé í raun eins krassandi og búist var við. Þórhildur Sunna spyr því:
„Það sem mér finnst kannski áhugavert er að spyrja hvers vegna skipti svona miklu máli að halda þessu leyndu fyrst að það er ekkert merkilegt í þessu?“
Bætir hún við að hún telji að umræðan um greinargerðina hefði verið meiri hefði þing verið kallað saman. Þó telur hún viðbrögð almennings við henni hafa verið sterk: „Mér finnst viðbrögðin hafa verið frekar sterk miðað við að við erum í miðjum júlí og erum að tala um frekar flókna fjármálagerninga.“
Væntir Þórhildur Sunna þess að málið verði rætt þegar þing kemur aftur saman í haust.
„Þetta hleypur ekkert frá okkur. Þetta er búið að bíða í fimm ár. Þetta getur beðið í nokkrar vikur í viðbót.“