„Held að bílastæðin séu að fyllast hérna“

Tveir landverðir voru á gosstöðvunum í dag en fjöldi fólksbíla streymdi inn á svæðið um hádegisbil þegar mbl.is bar að garði.

Landverðir hafa þurft að veita fólki með lítil börn og hunda tiltal en hafa þó ekki heimild til að banna fólki að fara inn á svæðið. mbl.is ræddi við Eirík Örn Pétursson, landvörð á svæðinu.

Hefurðu þurft að stoppa einhverja af?

„Nei. Maður hefur bent fólki á að ekki sé sniðugt að fara með lítil börn og hunda að gosinu. En við getum bara sagt þeim til. Við getum ekki bannað þeim að fara. Það er auðvitað bara lögreglan sem getur það.“

Finnur þú fyrir manneklu á svæðinu?

„Ég held það séu allir í sumarfríi. Það er lítið af björgunarsveitarfólki núna en við vonumst til að þetta gangi upp í dag.“

 Landverðir, sem nýverið tóku til starfa við gosstöðvarnar, hafa það hlutverk að aðstoða fólk, athuga hvort það sé vel skóað og með mat og drykk.

„Að það geri sér grein fyrir aðstæðunum sem það er að fara út í,“ útskýrði Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert