Flugu yfir gosið og aldrei séð annað eins

Fjölskyldan frá Úkraínu, fv. Sergey yngri, Victoria, Sergey, maður hennar, …
Fjölskyldan frá Úkraínu, fv. Sergey yngri, Victoria, Sergey, maður hennar, og yngri sonur þeirra, Dima. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum aldrei áður séð annað eins. Útsýnið yfir eldgosið var magnað, sem og allt annað sem við sáum af fallegri náttúru á Íslandi,“ segir Victoria Kryvosheieva frá Úkraínu, sem flaug nýverið yfir eldgosið ásamt eiginmanni sínum, Sergey Ushov, og tveimur sonum þeirra, Sergey og Dima.

Þau eru meðal þúsunda erlendra ferðamanna sem séð hafa eldgosið við Litla-Hrút undanfarnar tvær vikur. Flestir hafa farið á tveimur jafnfljótum en fjölmargir einnig kosið að fara í útsýnisflug, líkt og fjölskyldan frá Úkraínu gerði með þyrlu frá Norðurflugi.

Fjölskyldan flúði Úkraínu í upphafi átakanna á síðasta ári og býr núna í Hollandi. Victoria segir þau ekki hafa verið óhult í heimalandinu og því ákveðið að yfirgefa það. Synirnir hafa verið í skóla í Hollandi en þegar sumarleyfi þar hófst var ákveðið að ferðast til Íslands.

„Daginn áður en við áttum flug til Íslands heyrðum við að eldgos væri komið af stað og við ákváðum strax að við yrðum að fara og sjá eldgosið,“ segir hún.

„Náttúran á Íslandi er mjög falleg og við erum enn í skýjunum eftir ferðina,“ segir Victoria en fjölskyldan er komin aftur til Hollands eftir vel heppnaða Íslandsferð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert