Grenndargámar borgarinnar stútfullir

Grenndargámarnir við Vesturbæjarlaug.
Grenndargámarnir við Vesturbæjarlaug. Mynd/Facebook

Íbúar í Reykjavík hafa kvartað yfir yfirfullum grenndargámum borgarinnar, í íbúahópum á Facebook. Í samtali við mbl.is segir Friðrik Klingbeil Gunnarsson, verkefnastjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, að umhverfisþjónustan Terra hafi hætt þjónustu í Reykjavík fyrr en áætlað var og því byrjað að fjarlægja tunnur af heimilum.

Terra mun þó halda áfram að sjá um þjónustu við grenndarstöðvar í samstarfi við Sorpu, en í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar er íbúum bent á að nýta grenndarstöðvar eða endurvinnslustöðvar Sorpu, þar til komið er að tunnuskiptum vegna samræmdar sorphirðu í Reykjavík. Tímaáætlun fyrir afhendingu á nýjum tunnum má finna á vef Reykjavíkurborgar. 

Ráðum einfaldlega ekki við þetta

Að sögn Friðriks ákváðu bæði Íslenska gámafélagið og Terra að hætta með endurvinnslutunnur á heimilum í fyrra. 

Íslenska gámafélagið byrjaði fljótlega að fjarlægja sínar tunnur í kjölfarið að sögn Friðriks, en Terra féllst á að fylgja tímaplani borgarinnar, varðandi innleiðingu á nýjum endurvinnslutunnum. Nú hefur Terra hins vegar hafa spýtt í lófana og ákveðið að byrja að fjarlægja tunnur. Sum hverfi fá hins vegar ekki nýjar tunnur fyrr en í september.

„Þá náttúrlega byrjar fólk að vanta tunnur og hringir í okkur. Við erum í innleiðingu og einfaldlega ráðum ekki við þetta. Þetta er allt of mikið og við erum ekki með tunnur í þetta.“

Rusl við grenndargámana á Óðinsgötu í Miðgborginni.
Rusl við grenndargámana á Óðinsgötu í Miðgborginni. Mynd/Facebook

Tækjabilun hjá Terra

Hann segir borgina í fyrstu hafa reynt að bregðast við tunnuskorti íbúa á undan áætlun, en hafi ekki ráðið við það. Því hafi þau gripið til þess ráðs að benda fólki á grenndargámana og endurvinnslustöðvar Sorpu. 

Spurður segir Friðrik að borgin hafi beint tilmælum til Terra að auka þjónustu við grenndargáma og fyrirtækið hafi tekið vel í það. Terra hafi orðið fyrir tækjabilun í síðustu viku og því ekki náð að tæma neina gáma fyrr en á miðvikudag. Þeir hafi hins vegar heitið því að hirða sorp úr og í kring um gámana yfir helgina.  

Svakaleg breyting fyrir sorphirðu

„Þetta er náttúrlega svakaleg breyting fyrir sorphirðuna okkar,“ segir Friðrik og bendir á að margt jákvætt muni hins vegar fylgja innleiðingu samræmdar sorphirðu.  Til að mynda verði sorphirða tíðari eða á tveggja vikna fresti í stað þriggja. „Við vorum líka að fá þrjá glænýja sorphirðubíla sem voru að koma frá Svíþjóð.“ 

Hann bætir við að borginni þyki þetta að sjálfsögðu leiðinlegt og að starfsmenn borgarinnar séu meðvitaðir um vandamálið við grenndargámana. „Við viljum auðvitað að þetta sé þjónustað vel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert