Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Vel hefur gengið að ferja fólk á Þjóðhátíð með Herjólfi og eru ferðir með honum nánast uppbókaðar. Þetta segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs.
„Það var mikið bókað í gær og mikið í dag. Þessir flutningar hafa gengið mjög vel og mikill fjöldi er kominn niður í Landeyjahöfn.“
Björgunarsveitir á svæðinu hafi tekið að sér að aðstoða Þjóðhátíðargesti.
„Við erum með björgunarsveitir sem leiðbeina fólki í bílastæði og þetta hefur allt saman gengið eins og í sögu.“
„Þetta eru mjög góðir gestir sem við erum að fá og allir passlega þolinmóðir til þess að þetta gangi sem best upp.“
Spurður hvort fólk sé fyrr á ferðinni í ár segir Hörður að mynstrið sé svipað og undanfarin ár.
„Það er fólk áfram að koma til Eyja á laugardegi og sunnudegi til Eyja. Síðan á mánudeginum byrjum við að sigla klukkan tvö um nóttina og siglum til miðnættis. Klárum þetta síðan á miðvikudeginum og þriðjudeginum.“