Um átta til tíu höfrungar af tegundinni létti sáust í utanverðum Eyjafirði í dag. Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði, segir það afar óvenjulegt.
Mjög sennilega sé þetta enn ein vísbendingin um hlýnun jarðar. Edda útilokar ekki að höfrungarnir geti staldrað hér við um einhvern tíma.
Farþegar á vegum hvalaskoðunarfyrirtækisins Whale Watching Hauganes voru á meðal þeirra heppnu sem börðu höfrungana augum beint fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækisins. Léttir eða Delphinus delphis er mun útbreiddari á suðlægari slóðum og þrífst best í 15-20 gráða heitu vatni.
Það sé þó ekki óheyrt að höfrungarnir sjáist í kaldara vatni að sögn Eddu enda fylgi þeir hafstraumum. Komi heit tunga frá golfstrauminum geti það því leitt þá á norðurslóðir. Sennilegast séu ástæðurnar blanda af hafsstraumsskilyrðum og fæðuleit, en dýrin séu einnig hópdýr sem ferðist saman.
Edda segir hvali almennt góðan mælikvarða á vissar breytingar og því séu höfrungarnir ekki ósennilega enn ein vísbendingin um loftslagsbreytingar, þó slíkt geti auðvitað alltaf verið tilviljanakennt.
„Það má alveg fara að búast við því að við förum að sjá einhverjar breytingar í samansetningu hvalategunda og sjávarspendýra hér við land, ef áfram heldur sem horfir hvað varðar hlýnun sjávar hér við land.“
Hún kveðst ekki vita til þess að léttir hafi áður sést á sundi innan landhelginnar, en segir tegundina áður hafa rekið á land. „Að sjá heilan hóp, sem virðast frískir og ferskir í ætisleit í Eyjafirði, er verulega óvenjulegt og ótrúlega merkilegt.“
Spurð hvort hún hyggist halda á Eyjafjörð til að sjá dýrin með eigin augum kveðst Edda ætla að bíða og sjá. Tegundin stoppi yfirleitt stutt við en ef sjáist til þeirra á næstu dögum sé ekki ósennilegt að hún fari á staðinn.
Í millitíðinni fylgist hvalaskoðunarfyrirtækin með en Edda segir þau hafa lagt mikið af mörkum í þágu vísindanna, með því að skrásetja staðsetningar, dagsetningar og hegðun og taka myndir af hvölunum. Vísindamenn geti því leitað til þeirra varðandi upplýsingar.
Tegundina má jafnan finna bæði nærri landi og í innhöfum, eins og á Miðjarðarhafi, Svartahafi, Rauðahafi og Persaflóa, sem og á opnu úthafinu, einkum á heittempruðum svæðum. Þá eru einnig heimildir fyrir því, að léttir eigi það til að fara upp í ósalt vatn, eins og til dæmis Hudson-fljótið í New York í Bandaríkjunum.
Að minnsta kosti tvö dýr hafa fundist rekin á bökkum þess, annað 135 km upp inn til landsins og hitt 270 km frá sjó.
Léttir er fullvaxinn 1,6–2,7 metrar að lengd og um 70–200 kg að þyngd. Dýr í norðaustanverðu Atlantshafi virðast töluvert stærri en annars staðar. Tarfar eru örlítið lengri en kýr.
Fæðan er breytileg eftir svæðum og árstíma. Mest er tekið af ýmiss konar smávöxnum uppsjávartorfufiski og eitthvað líka af smokkfiski, oft að kvöldi eða næturþeli.
Algengast er að fæðu sé aflað á 5–40 metra dýpi en þó er vitað um höfrung sem fór niður á 280 m dýpi eftir fæðu og var í átta mínútur samfellt neðansjávar. Einstaklingsfrelsið er talið meira ráðandi í röðum léttis en gerist með höfrungum alla jafna, en þó er samvinna um fæðuöflun og hún býsna þróuð.
Fram til ársins 1997 hafði bara eitt dýr rekið á fjörur hér. Ekki er vitað hvort breyting hafi orðið á þeim málum á síðari árum, en þau dýr eru þá teljandi á fingrum annarrar handar, ef svo er.
Sem kunnugt er hafa þó ýmsar aðrar fáséðar hlýsjávarhöfrungategundir verið að finnast reknar, s.s. þvergrámi og nú síðast rákahöfrungur.
Ekki er ósennilegt að sú sjón, sem mætti gestunum norður við miðjan Eyjafjörð í dag, eigi eftir að endurtaka sig í framtíðinni.
Spurð hvort umhverfisaðstæður við Ísland séu lífvænlegar léttum segir Edda þær að minnsta kosti ekki æskilegar. Hvalategundir afmarkist af ákveðnu hitastigi.
„Það er ekki hitastigið sem slíkt sem segir til um hvort dýrið lifir af heldur aðstæðurnar sem eru í því hitastigi,“ segir Edda og nefnir sem dæmi fæðumöguleika og samkeppni við aðrar tegundir.
„Svo ef hér er fæðu að hafa og þeir læra á þessi hafsvæði okkar hér, þá er ekkert því til fyrirstöðu að fleiri fari hér að koma og þeir fari að halda hér til.“