Telur aðbúnað við Herjólf vítaverðan

Harald Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, telur merkingar við aðstöðu Herjólfs …
Harald Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, telur merkingar við aðstöðu Herjólfs í Vestmannaeyjum vítaverður og reiknast svo til að þar hafi 20 bifreiðar orðið fyrir tjóni síðustu ár. Ljósmynd/Aðsend

Mig rak í rogastans þegar ég las þessa frétt, það eru þrjú ár síðan okkar félagsmenn voru að lenda í stórum vandræðum þarna, nokkur félög, bæði Skybuss, Bus4You og Teitur [Jónasson] og fleiri sem keyrðu undir þessa brú. Þetta var svo illa merkt.“

Þetta segir Harald Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, í samtali við mbl.is en tilefnið er nýleg frétt hér á vefnum af óheppnum ökumanni vörubifreiðar sem ók á landgöngubrú Herjólfs í Vestmannaeyjum á þriðjudagsmorguninn.

Harald telur merkingum á svæðinu ábótavant og því ekki heiglum hent fyrir ökumenn óvana staðháttum að fara þar um. „Þetta var svo illa merkt og svo hékk þarna stálstöng yfir og pínulítil merking á henni þar sem stóð 3,8 metrar. Óvanir bílstjórar keyrðu bara undir þetta,“ segir Harald og bætir því við að öll fyrirtækin hafi talað við lögreglu vegna mismunandi tjóna.

Fimm milljónir hvert skipti

Rifjar hann upp að Grayline hafi tjónað tvær hópferðabifreiðar illa vegna loftræstibúnaðar á þaki bifreiðanna. „Loftkælingarkerfið er á toppnum og það dúndrast í þetta og það eru bara fjórar-fimm milljónir í hvert skipti. Líklega hafa sex bílar lent í tjóni þarna, tjón upp á kannski tuttugu milljónir, og Herjólfur gerði aldrei neitt. Við töluðum við þá, Rúnar hjá Grayline líka og fleiri. Þá fengust þau svör að það ætti að skoða þetta eitthvað en svo var aldrei neitt gert,“ rifjar formaðurinn upp.

Telur hann aðbúnaðinn vítaverðan þar sem bílstjórar eigi oft enga möguleika. „Í fyrsta lagi ætti að vera búið að loka fyrir akstur þarna undir eða að minnsta kosti merkja þetta kirfilega svo menn séu ekki að gera þessi mistök aftur og aftur, þetta eru svo dýr mistök,“ segir Harald.

Ef þetta er nýr maður þá keyrir hann á

Í tilfellinu á þriðjudaginn hafi tjón á vöruflutningabifreiðinni ekki orðið mikið en hins vegar hafi landgöngubrúin stórskemmst. „Og þar situr bílstjórinn í súpunni og hans tryggingafélag. Og ef þú ert ekki í kaskó berðu tjónið á tækinu sjálfur eins og þessi rútufélög sem hafa verið að lenda í þessu. Eins geta bílstjórar sem eru í vinnu fyrir aðra lent í því að vera reknir vegna tjóna af þessu tagi,“ heldur hann áfram.

„Allir bílar eiga að fara þarna og það er merkt þannig en svo eiga trukkarnir að bíða í brekkunni en ekki fara sömu leið og aðrir bílar. Það er bara svo illa merkt að þeir fara sömu leið og sjá svo ekki merkinguna af því að hún er svo léleg. Við höfum bent á þetta og varað bílstjóra við þessu en ef þetta er nýr maður þá keyrir hann á þetta, það er bara svoleiðis,“ segir Harald Teitsson, formaður Félags hópferðaleyfishafa, að síðustu og krefst úrbóta á athafnasvæði Herjólfs í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert