Oddvar Haukur nýr framkvæmdastjóri Farfugla

Oddvar Haukur er nýr framkvæmdastjóri Farfugla ses.
Oddvar Haukur er nýr framkvæmdastjóri Farfugla ses. Samsett mynd

Oddur Haukur Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Farfugla ses., en hann tekur við starfinu af Sigríði Ólafsdóttur sem kveður eftir 23 ár hjá félaginu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag. 

Oddvar Haukur hefur starfað hjá Farfuglum frá árinu 2018, fyrst sem rekstrarstjóri Laugardals og síðan sem fjármálastjóri félagsins. Áður en hann hóf störf hjá Farfuglum gegndi Oddvar Haukur, sem er viðskiptafræðingur að mennt, ýmsum stjórnunarstöðum innan Norðursiglingar ehf. 

Farfuglar eiga og reka Dal HI-Hostel og Loft HI-Hostel í Reykjavík, en auk þess eru 16 HI-hostel um land allt rekin með sérleyfi af einkaaðilum. Þá rekur félagið einnig tjaldsvæðið í Laugardal.

Samtökin eiga sér yfir 100 ára sögu og er markmið þeirra að styðja við ábyrgan ferðamáta fólks. Farfuglar eru sjálfseignarstofnun og hluti af óhagnaðardrifinni alþjóðlegri gistikeðju, Hostelling International, sem samanstendur af yfir 3.000 farfuglaheimilum og 3,3 milljónum félagsmeðlima, í yfir 60 löndum.

Farfuglar hafa alla tíð verið leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi og voru hostel félagsins í Reykjavík þau fyrstu á Norðurlöndunum til þess að hljóta umhverfisvottun frá Svaninunum, auk þess sem tjaldsvæðið er umhverfisvottað af Vakanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert