Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samráð stóru skipafélaganna er vísað til innanhússamskipta Samskipa þar sem ákveðið er að leggja „svínsálag“ á útflutning Promens. Á sama tíma er sagt að Eimskip hafi verið meðvitað um að fara ekki að falast eftir viðskiptum við Promens og þannig ekki „rugga bátnum“ á markaði.
Promens er sagt í skýrslunni mikilvægur viðskiptavinur Samskipa, bæði í sjóflutningi til og frá Íslandi og í landflutningi. Óskaði fyrirtækið eftir verðkönnun/útboði í júní 2009.
„Þegar Samskip voru að leggja lokahönd á tilboð fyrirtækisins til Promens kom fram í innanhússamskiptum hjá Samskipum að í tilboðinu fælist „svínsálagning“ á útflutningi Promens til Noregs. Tilboð Samskipa var síðar sama dag sent til Promens (með umræddri „svínsálagningu,“ segir í skýrslu með úrskurði Samkeppniseftirlitsins.
„Hjá Eimskip var hins vegar sú lína lögð að ekki ætti að „dumpa verðum niður“ gagnvart Promens og „ekki rugga bátnum“ til að tryggja áframhaldandi markaðsskiptingu um mikilvæga viðskiptavini,“ segir í skýrslunni.
Promens hf var selt úr landi árið 2015 en var á þeim tíma eitt stærsta fyrirtæki landsins. Rotovia hf., félag í eigu framtakssjóðanna SÍA IV og Freyju, keypti félagið svo aftur til landsins árið 2022.