Kristrún vill innleiða skaðabótatilskipun ESB

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin hafi ekki gert …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að koma í veg fyrir samráð fyrirtækja í framtíðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að koma í veg fyrir samráð fyrirtækja í framtíðinni. Vill hún innleiða tilskipun Evrópusambandsins til þess að tryggja frekari vernd fyrir neytendur og tekur forsætisráðherra undir það.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag, þar sem Kristrún vísaði fyrirspurn að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Kristrún vísaði í samráð Eimskips og Samskipa en samkvæmt frummat­i, sem unnið var fyr­ir Fé­lag at­vinnu­rek­enda, Neyt­enda­sam­tök­in og VR, kostaði sam­ráð skipa­fé­lag­anna ís­lenskt sam­fé­lag tæp­lega 62 millj­arða króna á ár­un­um 2008 til 2013.

„En hvað hefur ríkisstjórnin gert til að bregðast við þessu samsæri gegn þjóðinni og til að koma í veg fyrir að leikurinn verði endurtekin? Ekkert. Ekki neitt,“ sagði Kristrún.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eyþór

Stendur til að innleiða tilskipunina

Kristrún sagði mikilvægt að innleiða skaðabótatilskipun ESB frá 2014 sem er ætlað að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að sækja bætur vegna samkeppnislagabrota.

Katrín sagði að tilskipunin hefði ekki verið tekin upp í EES samninginn og því hefði ekki hvílt skuldbinding af hálfu íslenskra stjórnvalda að innleiða þá tilskipun.

Hún sagði einnig að það væri metið sem svo að það skipti máli að hér á landi myndu gilda sömu starfsskilyrði og annar staðar á EES svæðinu. Er það metið sem svo að innleiðing tilskipunarinnar eigi rétt á sér að loknu eða að undangengnu formlegu ferli í samræmi við ákvæði EES samningsins.

„Hins vegar liggur algerlega fyrir að þegar því er lokið stendur til að innleiða hana í íslenskan rétt þannig að það hefur verið gefið skýrt út,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert