Nýju hjólin reyndust hægari

Hugbúnaðarvillan hefur verið uppfærð og vandamálið því ekki lengur til …
Hugbúnaðarvillan hefur verið uppfærð og vandamálið því ekki lengur til staðar. Ljósmynd/Hopp

Rafhlaupahjólafyrirtækið Hopp setti á dögunum 270 ný rafhlaupahjól á göturnar. Notendur voru fljótir að taka eftir mun á hraða nokkurra hjólanna og sniðgengu þau þess vegna. Sæ­unn Ósk Unn­steins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hopp í Reykja­vík, segir að um hugbúnaðarvillu hafi verið að ræða sem búið sé að laga en villan var í 50 hjólum af þeim 270 sem fóru á göturnar.

Hjólin eru því orðin jafn hraðskreið og önnur.

Um þrjú þúsund rafhlaupahjól eru á götunum á vegum fyrirtækisins Hopp.

Sniðgengu rafhlaupahjólin

Notendur voru farnir að sniðganga nýjustu rafhlaupahjólin að því er mbl.is kemst næst en Sæunn segir vandamálið þó ekki hafa varað lengi.

Hún segir að um hugbúnaðarvillu hafi verið að ræða sem olli því að um 50 rafhlaupahjól náðu ekki nema 20 km/klst í stað 25 km/klst.

Sæunn segir þó að ekki hafi verið um stórvægilegt vandamál að ræða enda hafi hjólin nú verið uppfærð og hugbúnaðarvillan því ekki lengur til staðar. „Þetta voru bara nokkrir dagar,“ segir hún og fagnar því að ávallt séu að bætast hjól í flotann. 

Hraðastillir í smáforritinu

„Það er aftur á móti hægt að hraðastilla hjólin í appinu, þannig að þú komist ekki hraðar en á 15 km/klst,“ segir Sæunn og bendir til að mynda á að foreldrar geti stjórnað hraðanum í smáforriti Hopp svo börnin þeirra komist ekki á 25 km/klst. 

Hún segir hraðastillinguna þó ekki hugsaða fyrir börn enda leyfir fyrirtækið ekki einstaklingum undir átján ára að nota þjónustuna. Það er þó ljóst að töluvert af ungmennum nota hjólin, enda erfitt að koma í veg fyrir það nema með hjálp foreldra og forráðamanna, þar sem engin aldurstakmörk eru á notkun rafhlaupahjóla í lögum. 

Hættan eru bílarnir, ekki hjólin

„Þetta snýst samt ekki um hraðann,“ segir Sæunn og leggur áherslu á að foreldrar kenni börnunum sínum að valda farartækjunum á sama hátt og þeim eru kenndar umferðarreglurnar eða að hjóla. 

„Rafskúturnar eru partur af almenningssamgangnakerfinu. Það er rosalega mikilvægt að foreldrar og forráðamenn séu upplýstir. Upplýsi börnin sín um farartækin og hætturnar í umferðinni sem er klárlega bíllinn, en ekki rafskúturnar,“ segir Sæunn að lokum. 

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að um væri að ræða 200 ný rafhlaupahjól. Hið rétta er að þau voru 270 talsins og hefur fréttin verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert