„Sam­tal sem þarf að hafa kjark til að taka“

„Við erum auðvitað gríðarlega vonsvikin enn eina ferðina að ekki …
„Við erum auðvitað gríðarlega vonsvikin enn eina ferðina að ekki hafi náðst meiri árangur í þessum leikskólamálum,“ segir Hildur. Samsett mynd

Margir telja lausnina við leikskólavanda borgarinnar felast í því að hækka laun leikskólakennara, en ef svo á að vera þarf samhliða að ræða hækkun leikskólagjalda og kalla fram afstöðu foreldra til þess, að mati Hild­ar Björns­dótt­ur, oddvita Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík.  

„Kannski væri betra að hafa gjaldið ör­lítið hærra ef það yrði til þess að bæta þjónustuna,“ seg­ir odd­vit­inn í sam­tali við mbl.is. 

Í byrjun mánaðar voru samtals 658 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi í borgarreknum leikskólum. Til viðbót­ar bíða 67 börn eft­ir flutn­ingi úr sjálf­stætt starf­andi leik­skól­um í Reykja­vík.

Hildur segir ástandið í leikskólamálum óásættanlegt og að meirihlutinn hafi ekki sett það í pólitískan forgang, líkt og nauðsynlegt sé að gera. 

„Við erum auðvitað gríðarlega vonsvikin enn eina ferðina að ekki hafi náðst meiri árangur í þessum leikskólamálum,“ segir Hildur.

„Staðan er enn þá mjög slæm, þrátt fyrir mjög fögur fyrirheit og loforð í kosningum fyrir rétt rúmu ári síðan þar sem að því var lofað að öll 12 mánaða börn myndu fá inngöngu á leikskóla strax það haustið.“

Meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla sé þó í kringum 22 mánaða og því sé enn mjög langt í land.

Vill að málið verði sett í forgang

„Það sem við höfum viljað sjá er auðvitað að málið verði sett í forgang og að fólk myndi skynja að þetta sé pólitískt forgangsmál hjá þessum meirihluta. Við höfum líka bent á það að það sé ekki ein lausn sem henti öllum fjölskyldum.“

Hún viðurkennir að vandamálið sé flókið og að ekki sé til staðar töfralausn sem geti leyst það á einni nóttu.

„Það þarf að leysa þetta með margþætt­um lausn­um, eitt er að fjölga leik­skóla­pláss­um. Svo þarf að styðja bet­ur við dag­for­eldra stétt­ina og jafnframt tryggja kost á heim­greiðslum til þeirra sem kjósa að dvelja leng­ur heima með börn­un­um sín­um og létta þannig um leið á biðlist­um leik­skól­anna.“ 

Þá sé einnig vert að skoða möguleikann á því að koma af stað tilraunaverkefni í grunnskólum sem snýr að því að leyfa fimm ára börnum að hefja skólagöngu ári fyrr.

„Það myndi létta á ein­hverj­um leik­skól­um en það hef­ur ekki feng­ist neitt sam­tal í borg­inni um það. Þau hafa raunar almennt verið frek­ar hrædd að hugsa í stór­um lausn­um.“ 

Fóru í „langt og notalegt sumarfrí“

Þú upplifir þá ekki að þetta mál sé sett í forgang hjá meirihlutanum?

„Nei alls ekki. Í kjöl­far síðustu kosn­inga tek­ur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn við þess­um mála­flokki og svo virðast þau bara hafa farið í langt og nota­legt sum­ar­frí og brugðið í brún þegar þau komu til baka í Ráðhúsið, fullt af for­eldr­um að mót­mæla. 

Ég segi það nú fyrir okkur í Sjálfstæðisflokknum að ef okkur hefði verið falið að leiða þennan málaflokk þá hefðum við ekki farið í sumarfrí heldur legið yfir því að leita lausna yfir sumarið því þetta er alltaf mjög fyrirsjáanlegt vandamál á haustin.“

Uppsafnaður viðhaldsvandi

Spurð hvernig hægt væri að fjölga leikskólaplássum, líkt og hún minnist á að þurfi að gera, segir Hildur það flókið verk.

„Ein af ástæðunum að plássin eru ekki fleiri er auðvitað þessi margra ára uppsafnaði viðhaldsvandi á skólahúsnæði í borginni. Það eru hátt í 300 pláss sem eru ónothæf núna af því að viðhaldi hefur ekki verið sinnt og húsnæðið er ónothæft vegna myglu eða raka,“ segir Hildur, en bætir við að einnig þurfi að leysa mönnunarvandann.

„Hvernig fáum við fólk til liðs við leik­skól­ana hjá Reykja­vík­ur­borg? Þar hef­ur verið ým­is­legt rætt eins og að setja leik­skóla­dag­inn upp meira eins og grunn­skóla­dag­inn. Að fag­legt starf fari fram á ákveðnum tíma inn­an dags­ins og hinar stund­irn­ar séu meira í lík­ingu við frí­stund. Þetta er eitt­hvað sem maður hef­ur heyrt að leik­skóla­kenn­ur­um hugn­ist og mætti skoða betur.“ 

En hvað með að hækka laun leikskólastarfsmanna?

„Það þyrfti þá að skoða í sam­hengi við hvort að það eigi að hækka leik­skóla­gjöld­in. Eins og staðan er í dag þá er rekstri borg­ar­inn­ar ekki þannig háttað að það sé hægt að hækka laun. en þetta eru auðvitað gríðarlega mik­il­væg störf og það er bara sam­tal sem þarf að hafa kjark til að taka, hvort það sé ástæða til að hækka leik­skóla­gjöld svo ein­hverju nem­ur. 

Það kost­ar nærri 400 þúsund krón­ur á mánuði fyr­ir sveit­ar­fé­lagið að vera með 12 mánaða barn á leik­skóla. Þetta er svaka­lega mikið niður­greidd þjón­usta og meiri­hlut­inn hef­ur stært sig af því að vera með ódýr­ustu leik­skól­ana, sem er mjög mót­sagna­kennt. Það er svo­lítið eins og að auglýsa ódýr­ustu mat­vör­una í versl­un sem er með tóm­ar hill­ur og engar vörur að bjóða. Það er lítið gagn af ódýru leik­skóla­plássi þegar að þú hef­ur ekki aðgengi að pláss­um. Kannski væri betra að hafa gjaldið ör­lítið hærra, geta fengið fleira fólk til starfa og boðið betri þjónustu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert