Neitar sök í Ólafsfjarðarmálinu

Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari ræðir við verjanda í málinu fyrir þingfestinguna …
Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari ræðir við verjanda í málinu fyrir þingfestinguna við Héraðsdóm Norðurlands eystra fyrr í dag. mbl.is/Þorgeir

Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að bana Tómasi Waagfjörð á Ólafsfirði í október á síðasta ári neitaði sök við þingfestingu þess í Héraðsdómi Norðurlands eystra seinni partinn í dag.

Þingfestingunni var frestað fyrir tveimur vikum vegna þess að verjandi sakborningsins, Steinþórs Einarssonar, var einnig verjandi í Bankastræti club-málinu og fór aðalmeðferð þess þá fram.

Sat þingfestinguna í gegnum Teams

Steinþór mætti ekki í dómsalinn, en var þess í stað í fjarfundabúnaði. Fyrir hönd saksóknara mætti Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari.

Í ákæru málsins er Steinþór ákærður fyrir að hafa stungið Tómas tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi, en Tómas missti mikið blóð og lést. Steinþór er jafnframt ákærður fyrir hraðakstur í Héðinsfjarðargöngum.

Aðalmeðferð í næsta mánuði

Við þingfestinguna neitaði hann öllum sakargiftum, en í framhaldinu var ákveðið að skila skyldi greinargerðum 31. október. Er aðalmeðferð einnig áformuð 13. og 14. nóvember.

Í tveim­ur aðskild­um einka­rétta­kröf­um er farið fram á að hann greiði miska­bæt­ur sam­tals að fjár­hæð 12 millj­ón­ir kr. auk vaxta ásamt skaðabót­um að fjár­hæð 10.988.438 kr. auk vaxta vegna missis fram­fær­anda.

Sakborningurinn mætti ekki heldur tók hann þátt í þingfestingu í …
Sakborningurinn mætti ekki heldur tók hann þátt í þingfestingu í gegnum Teams. Hann neitaði sök alfarið í málinu. mbl.is/Þorgeir

Gögn málsins bera með sér að Tómas hafi fyrst ráðist gegn Steinþóri

Þrjú voru lát­in sæta gæslu­v­arðhaldi við rannsókn málsins, eig­in­kona hins látna, vin­ur henn­ar og hús­ráðandi á staðnum. Öll höfðu þau hlotið dóma, ým­ist fyr­ir of­beld­is­brot eða vörslu og smygl á fíkni­efn­um. Tveir sak­born­ing­anna voru látn­ir laus­ir á byrj­un­arstigi rann­sókn­ar og Steinþór var svo látinn laus einnig um ein­um mánuði síðar.

Við rann­sókn máls­ins sviðsetti lög­regla meðal ann­ars at­b­urðinn með hjálp Steinþórs, en í gæslu­v­arðhalds­úrsk­urði yfir hon­um kom fram að gögn máls­ins bæru með sér að Tómas hefði veist að Steinþóri og stungið hann með hníf í and­lit og læri.

Þá hafi Steinþór náð yf­ir­hönd­inni í átök­un­um og veitt Tómasi stungusár sem drógu hann til dauða. Steinþór hélt því fram að hinn látni hefði fallið á hníf­inn í átök­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert