Fastir liðir eins og venjulega í 20 ár

Það var þétt setinn bekkurinn á Drekktu betur-keppni númer 999 …
Það var þétt setinn bekkurinn á Drekktu betur-keppni númer 999 á Ölstofunni síðasta föstudag. Margir gestir hafa komið frá upphafi og fyrir miðri mynd má greina einn þeirra, Ævar Örn Jósepsson fréttamann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurt er um ár. Þetta er árið sem Íslendingabók var opnuð almenningi og kvikmyndin Nói albinói var frumsýnd. Háhyrningurinn Keikó drapst og Íraksstríðið hófst, Cristiano Ronaldo gekk til liðs við Manchester United og Þórólfur Árnason varð borgarstjóri í Reykjavík. Rúrik Haraldsson leikari lést, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands kvæntist Dorrit Moussaieff og spurningakeppnin Drekktu betur hóf göngu sína á hinum sáluga pöbb Grandrokk við Smiðjustíg.

Umrætt ár er 2003 og því eru nú liðin 20 ár síðan fastagestir á Grandrokk komu á fót hinu vinsæla pöbbkvissi sem hefur verið haldið úti allar götur síðan. Í dag, föstudag, klukkan 18 fer keppni númer 1.000 af Drekktu betur fram á Ölstofu Kormáks og Skjaldar.

Jón Svanur Jóhannsson er einn skipuleggjenda Drekktu betur.
Jón Svanur Jóhannsson er einn skipuleggjenda Drekktu betur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi keppni er ómissandi hluti af lífi margra. Það er ákveðinn kjarni sem mætir alltaf og þar á meðal eru einstaklingar sem hafa komið frá byrjun. Margir hafa því mætt á mörg hundruð keppnir,“ segir Jón Svanur Jóhannsson, einn umsjónarmanna Drekktu betur. 

Þjóðþekkt fólk við stjórnvölinn

Fyrsta Drekktu betur-keppnin fór fram á Grandrokk við Smiðjustíg föstudaginn 25. apríl 2003. Þá hafði knæpan skömmu fyrr verið flutt um set en hún var áður við Klapparstíg, í húsnæði sem Sirkus tók þá við og gerði frægt um víðan völl. Líflegt menningarlíf var í kringum Grandrokk á þessum árum, þar var teflt og pílukast naut vinsælda. Staðurinn var vinsæll til tónleikahalds og leikfélag var starfrækt. Svo bættist spurningakeppnin við. Það var Freyr Eyjólfsson, þáverandi tónlistar- og fjölmiðlamaður og núverandi framámaður í endurvinnslumálum, sem kom keppninni á koppinn og var spyrill í upphafi. Sigurvegarar fyrstu keppninnar voru Örnólfur Árnason og Haraldur Blöndal. Davíð Þór Jónsson prestur stýrði keppni númer tvö. Því þótti skipuleggjendum viðeigandi að fá þá Frey og Davíð Þór til að snúa aftur á vígvöllinn í tilefni tímamótanna og verða þeir spyrlar á morgun.

Margir þjóðþekktir einstaklingar hafa tekið að sér spyrlahlutverkið í gegnum árin, til að mynda Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Vera Illugadóttir, Ævar Örn Jósepsson sem reyndar telst í hópi þaulsætnustu manna á Drekktu betur, Vilhelm Anton Jónsson, Stefán Pálsson og Þóra Arnórsdóttir. Drekktu betur hefur verið haldin á nokkrum stöðum á þessum tveimur áratugum en hefur síðustu níu árin átt sér fastan stað á Ölstofunni. Nema auðvitað á tímum kórónuveirunnar en þá var hún færð á netið eins og algengt var með viðburði og félagslíf fólks. Þá fékk keppnin nýtt nafn, Kófdrekktu betur, og voru 49 slíkar keppnir haldnar. Þær teljast vitaskuld ekki með í opinberri talningu yfir Drekktu betur-keppnir en þar er fast haldið í hefðir.

Steinþór Steingrímsson og Ölvir Gíslason voru spyrlar á Drekktu betur …
Steinþór Steingrímsson og Ölvir Gíslason voru spyrlar á Drekktu betur nr. 999. Þeir hafa ósjaldan stýrt skútunni eða verið með sjálfir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óneitanlega nördasamkoma

„Fólk hefur mjög sterkar skoðanir á keppninni og það má helst ekkert breytast,“ segir Jón Svanur. Hann er spurður að því hvað Drekktu betur sé. „Fyrir það fyrsta er þetta fastur félagsskapur fólks sem hefur að mörgu leyti svipuð áhugamál. Það hittist og fær sér kannski bjór en það er auðvitað ekki nauðsynlegt. Þetta er nördasamkoma, ætli það verði ekki að segjast, en í jákvæðustu merkingu þess orðs,“ segir hann og brosir.

Allir eru velkomnir á Drekktu betur og það kostar ekkert að vera með. „Þetta er bara gert til skemmtunar. Auðvitað hleypur í mann keppnisskap þegar maður er byrjaður en sigur er ekkert lykilatriði. Þetta er einfaldlega fastur punktur í tilverunni á góðum tíma og á góðum stað. Ölstofan er skemmtilegur staður til að setjast niður og spjalla við fólk. Þarna hefur myndast góð vinátta og við höfum meira að segja fært út kvíarnar. Þannig hefur árshátíð Drekktu betur verið haldin nokkrum sinnum.“

Býst við fullu húsi í kvöld

Jón Svanur segir að spennan fyrir keppni númer 1.000 hafi smám saman verið að byggjast upp. Síðustu mánuði hafi að meðaltali um 30 lið mætt til leiks en allra síðustu vikur hafi þau verið í kringum 40 talsins. Bekkurinn er þétt setinn á Ölstofunni þegar þangað mæta 80 manns og hann á allt eins von á að fleiri en það láti sjá sig í kvöld. „Við vonum að sem flestir komist inn en einhverjir þurfa sjálfsagt að standa. Meðan spyrlarnir komast inn þá leysum við hin vandamálin.“

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert