„Þú kemst ekkert mikið hærra“

Ljósmynd/Isaac Morillas Sanchez/World Weightlifting Media

„Draumurinn var að synda yfir Ermarsundið frá Englandi til Frakklands og taka svo lestina bara þaðan á Ólympíuleikana,“ segir Erna Héðinsdóttir, næringarfræðingur sjósundgarpur, lyftingakona og dómari í ólympískum lyftingum, og hlær, enda draumurinn hálft í hvoru grín svo sem eðli er margra drauma.

Hún ætlar sér þó að synda yfir Ermarsundið en alls óvíst er hvort það sund verði framkvæmt á leiðinni á Ólympíuleikana í París sumarið 2024 þar sem Erna mun fyrst Íslendinga gegna hlutverki dómara í ólympískum lyftingum.

„Ég næ því ekki alveg, við erum með „slot“ í Ermarsundið um mánaðamótin júní-júlí og Ólympíuleikarnir eru mánaðamótin eftir, lyftingarnar svo á dagskrá 7. til 11. ágúst,“ útskýrir dómarinn og fær í framhaldinu spurningu um aðdraganda ólympíuævintýrisins og sína yfirgripsmiklu reynslu við dómgæslu en Erna hefur verið algeng sjón á keppnismótum íslensks afreksfólks í ólympískum lyftingum og dæmdi til að mynda á Norðurlandameistaramóti í Stavern í Noregi í nóvember 2021 þar sem hún ræddi við mbl.is.

Með Taisto Kuoppala hinum finnska. „Hann kenndi fyrsta dómaranámskeiðið mitt …
Með Taisto Kuoppala hinum finnska. „Hann kenndi fyrsta dómaranámskeiðið mitt og svo vorum við saman á ritaraborðinu í sumar á EM Youth í Moldovu. Frábær kennari og vinur.“ Ljósmynd/Aðsend

Snörunin lá fyrir henni

„Það sem gerðist 2013 er að ég var næringarfræðikennari og var að kenna í Keili. Þangað kom erlendur gestakennari á helgarnámskeið að kenna styrktarþjálfun fyrir íþróttamenn og ólympískar lyftingar. Við kennararnir vorum velkomnir að fljóta með þegar gestakennarar komu og ég flýt með og prófa ólympískar lyftingar og snörunin [önnur tveggja keppnisgreina í ólympískum lyftingum] liggur svona rosalega vel fyrir mér,“ segir Erna frá.

Hún hafi þá ekki tvínónað við heldur stigið skrefið og tekið að stunda ólympískar lyftingar af hjartans lyst og skráð sig á landsdómaranámskeið strax árið eftir. Það hafi þó fyrst og fremst verið til að læra reglurnar í greininni, ekki til að verða einn innstu koppa í búri í dómgæslu í greininni og vitanlega hvarflaði ekki að henni á þessum tíma að áratug síðar veldist hún til að fella dóma sína á Ólympíuleikum.

„Ég hugsa að það séu mjög fá mót á Íslandi sem ég hef ekki dæmt á síðan eða á einhvern hátt komið nálægt,“ segir Erna af stöðu mála eftir að grunndómararéttindin voru í höfn á sínum tíma. „Krakkarnir mínir eru að æfa íþróttir líka og við deilum þeirri hugsjón að það eru ekki haldin mót nema einhver starfi á mótunum,“ segir Erna glettin en sonur hennar, Brynjar Logi Halldórsson, hefur getið sér góðan orðstír í greininni og skartar dómararéttindum eins og móðir hans.

Erna var eini íslenski dómarinn á NM í ólympískum lyftingum …
Erna var eini íslenski dómarinn á NM í ólympískum lyftingum í Stavern í nóvember 2021. Undir hæversku yfirborði jakkafatanna leynist kona sem veit sannarlega hvað hún syngur og er á leið í dómgæslu á Ólympíuleikum á næsta ári. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Alltaf á kantinum

„Ef ég er ekki að keppa þá á ég að vera að hjálpa til því það er alltaf einhver að hjálpa til þegar ég er að keppa,“ eru orð Brynjars, gömul saga og ný af fórnfýsi foreldra og jafnvel heilu fjölskyldnanna á íslenskum íþróttamótum. „Við höfum alltaf verið mikið í íþróttum og við höfum alltaf verið á kantinum einhvern veginn að hjálpa til líka,“ heldur hún áfram.

Reglan í ólympískum lyftingum er að landsdómararéttindi þarf að hafa í fimm ár áður en lengra er haldið og reiknað með að dómari viði að sér reynslu og þekkingu á greininni með árunum. „Þá er hægt að taka það sem kallað er „Category 2“ sem eru alþjóðleg dómararéttindi. Ég tók þau hins vegar eftir tvö og hálft ár, svindlaði aðeins,“ játar Erna.

Aðdragandinn að þessu var Norðurlandamót á Íslandi sem erlendir dómarar dæmdu meðal annars á og höfðu réttindi til að meta kunnáttu Ernu og eftir atvikum veita henni alþjóðleg réttindi. „Ég veit að það var annar sem gekk fyrir þar en hann eiginlega ýtti því yfir á mig að taka prófið,“ segir Erna frá sem stóðst prófið með æðsta láði á þessu Norðurlandamóti í október 2016. Þar með hafði hún öðlast réttindi til að dæma á öllum mótum nema heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum.

Dregur til tíðinda

„Það var svo í september 2021 sem ég fór á Evrópumeistaramót U-20 og U-23 í Rovaniemi [í Finnlandi], Brynjar var að keppa og fleiri íslenskir keppendur og þá fór boltinn að rúlla einhvern veginn. Þetta var rosalega skemmtilegt mót, fyrsta stórmótið mitt eftir covid, maður kynnist mjög mörgum í þessu og á vini um alla Evrópu. Ef maður væri á vinnustað þar sem starfsmannaandinn væri eins og í dómgæslunni á þessum mótum væri maður á góðum stað,“ segir Erna í léttum dúr og greinilegt að þar fylgir hugur máli.

Í framhaldinu hafi Erna farið að sækjast eftir að næla sér í „Category 1“-réttindin og vera þar með fær í flestan sjó í dómgæslu – í raun allan sjó. „Þau réttindi gefa þér leyfi til að dæma á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum en það er ekki þar með sagt að þú fáir að dæma þar,“ segir Erna sem náði þessu markmiði sínu örskömmu síðar, á Norðurlandameistaramóti í Danmörku í nóvember 2021. Það var svo núna í sumar sem verulega dró til tíðinda.

Erna starfar sem framkvæmdastjóri Lyftingasambands Íslands, tók við þeirri stöðu í apríl vegna fæðingarorlofs og þurfti því að fylgjast með netpósthólfi sambandsins. „Þá kemur allt í einu tölvupóstur um að mér hafi verið boðið á prufumót fyrir Ólympíuleikana. Ég spurði sjálfa mig nú bara fyrst hvort þetta væri svindlpóstur,“ segir Erna og hlær.

„Þú kemst ekkert mikið hærra, þetta er draumur flestra sem …
„Þú kemst ekkert mikið hærra, þetta er draumur flestra sem virkilega hafa farið inn í að dæma svona mikið.“ Ljósmynd/Kath Howlett

Eygló algjört undrabarn

Hún dæmdi á prufumótinu „og það næsta sem ég veit er að þar er ég handvalin inn. Ég veit það núna að það var forseti Evrópska lyftingasambandsins sem mælti með mér þangað inn sem þýðir vonandi að ég hafi verið að gera góða hluti á Evrópumótum undanfarið. Við erum líka sem þjóð orðin miklu sýnilegri og eigum orðið svakalega öflugt keppnisfólk,“ segir Erna og nefnir þar sérstaklega frænku sína, lyftingakonuna og læknanemann Eygló Fanndal Sturludóttur, sem hefur fátt annað gert en að raka til sín verðlaunapeningum á mótum undanfarið eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um.

„Við ætlum á þessa Ólympíuleika saman, ég sagði við hana að ég væri ekki að fara þarna án hennar. Hún er algjört undrabarn í þessu og á tvöfalda möguleika. Tíu efstu í samanlagðri þyngd fara sjálfkrafa inn en svo eru aukasæti fyrir litlar þjóðir sem eiga fáa keppendur í einstaklingsíþróttum og hún á mjög góða möguleika í því kerfi líka,“ útskýrir Erna.

Spurð út í hvaða þýðingu það hafi fyrir hana að veljast til dómgæslu á Ólympíuleikum hugsar hún sig ekki lengi um. „Þú kemst ekkert mikið hærra, þetta er draumur flestra sem virkilega hafa farið inn í að dæma svona mikið og mín tilfinning er að tími minn í þessum bransa miðað við aðra sem eru að fara að dæma þarna er frekar stuttur. Mér finnst bara magnað að fá þetta tækifæri,“ segir Erna Héðinsdóttir að lokum, fyrsti íslenski dómarinn í sinni grein á Ólympíuleikum að tæpu ári liðnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert