Hrinan skýrt merki um kvikuhlaup

Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni.
Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni. mbl.is/Hákon

Jarðskjálftahrinan sem varð í morgun, og stóð yfir í tæpa tvo klukkutíma, er skýrt merki um kvikuhlaup.

Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofunni, þar sem tekið er fram að GPS-mælingar styðji þessa túlkun. Kvikuhlaup merki að kvika sé á hreyfingu.

Hrinan hófst um klukkan 8.40 og varð skjálftavirknin ör. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 3,7 að stærð, en skjálftarnir voru á um 1,5 til 5 kílómetra dýpi.

Hægt hefur á landrisinu

Fram kemur að miðja hrinunnar hafi verið rétt austan við miðju landrissins sem mælst hefur.

Engar vísbendingar eru um gosóróa. Hægt hefur á landrisinu sem hófst fyrir um fjórum dögum síðan.

Loks er tekið fram að fundað hafi verið með almannavörnum og hagsmunaaðilum á Reykjanesskaga í morgun, þar sem farið hafi verið yfir nýjustu mælingar, mögulega þróun atburðarásarinnar og viðbrögð við henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert