Ferðamenn afbóka af hræðslu við eldgos

Villandi umfjöllun um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga, bæði í erlendum fjölmiðlum …
Villandi umfjöllun um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga, bæði í erlendum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, hefur gert marga ferðamenn tvístígandi um að halda til Íslands í fríinu. Samsett mynd

Neyðarstig, rýming heils bæjarfélags og yfirvofandi eldgos eru hugtök sem geta skotið ferðamönnum skelk í bringu. Umfjöllun á erlendum miðlum um ástandið á Reykjanesskaga hefur gert ferðamenn tvístígandi um að bóka ferð til landsins.

Sumir hafa jafnvel afbókað eða frestað bókunum sínum vegna ótta um öryggi sitt hér á landi.

Umfjöllun erlendra miðla um ástandið getur oft verið villandi. Samfélagsmiðlar eru engin undantekning í því samhengi og sumir notendur eru varkárri en aðrir í sinni umfjöllun um jarðhræringar á Reykjanesskaga.

Einn TikTok-notandi birti t.d. myndband á miðlinum í gær þar sem hann sagði að Ísland gæti liðið undir lok vegna jarðhræringanna. Myndbandið hefur þegar fengið um 400 þúsund áhorf.

@lifewithryantelfer

Iceland might not exist anymore😳

♬ original sound - Ryan Telfer

Tekur eftir afbókunum og frestunum

Þorgeir Jóhannesson leigir út gistirými til ferðamanna á vettvangi Airbnb en hann segist hafa séð margar frestanir og afbókanir vegna hræðslu tilvonandi gesta við jarðhræringarnar á Reykjanesskaga. Margir ferðamenn óttist um öryggi sitt hér á landi og sumir séu hræddir um hvort yfirvofandi gos myndi fresta heimför sinni.

„Ég hef mikið orðið var við það, og fólkið í kringum mig í þessum bransa. Fólk virðist bara verið skelfingu lostið og telja að allt landið sé undir,“ segir Þorgeir í samtali við mbl.is.

„Ég hef talað við fleiri. Einn fékk sex afbókanir og beiðnir um frestun á einum degi.“

Þorgeir nefnir einnig að sumir ferðamenn krefjist endurgreiðslna á óendurkræfum greiðslum eftir afbókun. Hann segir að sé aftur á móti kostnaður sem útleigjandi sé ekki tilbúinn að taka á sig. Á það einkum við þegar gistirýmið hefur verið bókað í langan tíma.

Ferðamenn í Reykjavík. Mynd úr safni.
Ferðamenn í Reykjavík. Mynd úr safni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hægir á nýjum bókunum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu séu farin að finna fyrir áhrifum af villandi umfjöllun erlendra miðla. Verkefni ferðaþjónustunnar snýr nú að því gæta þess að réttar upplýsingar komist til skila.

„Fyrirtæki í ferðaþjónustu finna alveg fyrir þessu, bæði mismunandi upplýsingagjöf, fyrirspurnum frá fjölmiðlum, mismunandi viðskiptaaðilum og ferðamönnunum sjálfum sem eru með bókað hérna og eru að velta því fyrir sér hvort þeir ætli að koma til Íslands,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Hann kveðst þó ekki taka eftir „skelli af afbókunum“ en samt sem sjái ferðaþjónustufyrirtæki merki þess að farið sé að hægja á nýjum bókunum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 25 þúsund fréttir um Reykjanesskaga í erlendum miðlum

Jóhannes bendir á að búið sé að virkja viðbragðsáætlun ferðaþjónustunnar sem snúi m.a. að því að samræma upplýsingagjöf um jarðhræringarnar.

„Við svona aðstæður þá verður eitt af stóru verkefnunum að samræma upplýsingagjöf, þannig réttar upplýsingar komist áleiðis til þeirra sem þurfa á þeim að halda,“ segir hann og á þar við um erlendra fjölmiðla, utanríkisráðuneyti erlendis og ekki síst gestina sjálfa.

„Þetta er risa verkefni að halda utan um þetta og að hefur vissulega, sérstaklega fyrstu dagana, birst ýmislegt í erlendum fjölmiðlum sem hrærir í þeim potti,“ segir Jóhannes, sem telur að hátt í 25 þúsund fréttir hafa verið skrifaðar um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga í erlendum fjölmiðlum í vikunni.

„Svo er það líka það að fólk erlendis hefur almennt ekki sömu þekkingu og við heima á Íslandi um hvað eldgos þýðir – hvenær kemur öskuský og hvenær ekki, sem getur lokað flugvöllum,“ bætir hann við.

Erfitt að hafa tök á samfélagsmiðlaumfjöllun

Jóhannes segir það þó erfiðara að hafa taumhald á umfjöllun á samfélagsmiðlum. Fyrst og fremst einbeita þau sér að stærri miðlum en eftir föngum sé villandi umfjöllun á samfélagsmiðlum einnig leiðrétt eftir bestu getu.

„Það er afar erfitt að ná um þá umfjöllun alla. Ýmislegt sem fer á flug sem er mjög erfitt að leiðrétta þegar það er einu sinni farið af stað, enda gríðarlegur fjöldi fólks sem eru að pósta um svona og sumir sem koma réttum og raunverulegum upplýsingum á framfæri og aðrir eru kannski í þessu til að ná í fleiri áhorfendur,“ segir hann.

Hann bendir aftur á móti á vefsíður eins og government.is, visiticeland.is og safetravel.is þar sem ferðamenn geti nálgast réttar upplýsingar um ástandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert