Hrösuðu í Reynisfjöru og komust í hann krappan

Myndskeið hefur gengið á milli manna á veraldarvefnum af hópi ferðamanna sem komst í hann krappan í Reynisfjöru. Hefur það meðal annars verið birt á samfélagsmiðlinum Reddit.

Í lok síðasta árs lauk uppsetningu nýrra skilta við fjöruna, sem getur verið lífshættuleg vegna lævísra ólagsalda.

Læðast að fólki

Eins og sjá má á myndskeiðinu virka öldurnar saklausar en svo bókstaflega læðist ólagsalda að ferðamönnunum þremur.

Tveir þeirra falla við en annar kemst sem betur fer á fætur fljótt og nær að grípa í hinn og styðja á fætur áður en aldan hrífur hann með sér á haf út.

Óútreiknanleg náttúra

Ólagsöldurnar eru mun stærri en þær sem koma að ströndinni á milli þeirra og mislangur tími getur liðið á milli ólagsalda.

Stundum koma þær hver á eftir annarri en stundum geta margar smærri og hættuminni öldur komið á milli tveggja ólagsalda.

Geta risið mjög hratt og skollið á ströndinni

Ólagsöldurnar geta risið mjög hratt og skollið á ströndinni með nær engum fyrirvara, gripið fólk og sogað á haf út.

Ný skilti og viðvör­un­ar­kerfi virðast þó ekki alltaf hafa mik­inn fæl­ing­ar­mátt á ferðamenn. Ekki eru allir jafn heppnir og hollenski ljósmyndarinn Brend­an de Clercq en aldan skilaði honum á land jafn harðan og hún tók hann á haf út á köldum febrúardegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert