„Mjög alvarleg bilun“

Herjólfur siglir enn milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.
Herjólfur siglir enn milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Alvarleg bilun hefur komið upp í ferjunni Herjólfi. Við reglubundið eftirlit í gær, 22. nóvember, kom í ljós að bilun væri í skrúfbúnaði skipsins. Önnur skrúfa skipsins liggur því niðri. Framkvæmdastjóri Herjólfs segir ekki óöruggt að sigla skipinu þrátt fyrir bilunina. Þó þurfi að ráðast í viðgerðir sem allra fyrst. 

„Skipið getur siglt á annarri skrúfunni og er að sigla til Þorlákshafnar í þessum töluðu orðum.“

Þetta sagði Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.

Hann útskýrir að skipið sigli aðeins hægar vegna bilunarinnar. „Ferðalagið tekur rúmlega klukkutíma lengur, að sigla þessa leið. Það er helsti munurinn.“ Hann segir þó veður heppilegt til siglinga. „Svo þetta gengur ágætlega.“

Alvarleg bilun en ekki óöruggt að sigla

„Þetta er mjög alvarleg bilun,“ segir Hörður. Hann áréttar þó að skipið sé með tvær skrúfur einmitt til þess að hin geti tekið við skuli bilun á hinni koma upp. 

„En við værum ekki að sigla nema við værum vissir um að það væri í lagi. Það er búið að gera áhættumöt og annað varðandi siglingar til Þorlákshafnar. Skipið er vel búið öðrum öryggistækjum. Það er alls ekki óöruggt að sigla skipinu á einni skrúfu, það eru fjöldamörg skip á Íslandi með eina skrúfu,“ segir Hörður.

Stöðva mun þurfa Herjólf á meðan viðgerðunum á skrúfunni stendur.

Ríkið útvegar afleysingaskip

Hörður reiknar með því að viðgerðirnar muni hafa mikil áhrif á siglingarnar. Hann segir viðræður hafnar við ríkið um að útvega afleysingarskip á meðan gert er við Herjólf. 

Spurður hvað skipið geti verið lengi eins og það er segist Hörður ekki gera sér alveg grein fyrir því. „En á meðan veðrið er gott þá er það hægt [að sigla því]. En það þarf að fara í þetta sem allra allra fyrst. Það er það sem er verið að stefna að.“ 

Viðgerðir þurfa að gerast sem fyrst

Spurður eftir hve langan tíma skipið verði komið í sitt fyrra horf segir Hörður ekki vita það nákvæmlega. Undirbúningur viðgerða sé þó í fullum gangi. Varahlutir í verkið séu staðsettir í Vestmannaeyjum. „Það mun taka einhvern tíma að laga þetta. Það er verið að vinna í því hvernig og hvenær það mun gerast. En það þarf að gerast sem fyrst.“

Spurður nánar út í tímalengdina segir Hörður viðgerðirnar sennilega munu taka einhverja daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert