Meginmarkmiðið að efla fagorðaforða

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukin áhersla á fagorðaforða er ein af lykilaðgerðum til að bregðast við löku gengi íslenskra ungmenna í PISA, könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), samanborið við aðra nemendur á Norðurlöndunum. Þetta segir menninga- og viðskiptaráðherra. 

Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, sagði í gær að það væri ekkert launungarmál að lesskilningi íslenskra ungmenna hefði hrakað undanfarinn áratug. 

Sérstök áhersla lögð á orðaforða barna

Lilja Alfreðsdóttir, menninga- og viðskiptaráðherra, segir í samtali við mbl.is, að lögð hafi verið sérstök áhersla á orðaforða til að bregðast við slöku gengi íslenskra barna og ungmenna í PISA. Það verði því spennandi að sjá hvort sú áhersla hafi skilað árangri, það er að segja þegar niðurstöður næstu PISA-könnunar liggja fyrir. 

Skili sú áhersla ekki tilsettum árangri bindur Lilja vonir við nýja íslenskugátt, sem brátt verður kynnt, þar sem hægt verður að nálgast allt efni sem tengist orðaforða og málfræði í gegnum þau tæki sem börn og ungmenni nota í sínu daglega lífi. 

Raunsæishyggja verður að gilda til að ná árangri

„Það er ákveðin raunsæishyggja sem verður að gilda til að ná árangri,“ segir Lilja sem telur mikilvægt að námsefnið sé áhugavert og að nemendur sjái sér hag í því að leggja rækt við íslenskuna. 

„Það er þannig að ef nemendur eru góðir í móðurmálinu, þá skilar það sér inn í öll önnur fög,“ segir Lilja og bætir við að sterk fylgni sé milli þess að hafa gott vald á móðurmáli og námsárangurs. Segir hún fleiri atvinnutækifæri jafnan fylgja góðu gengi í skóla. Því sé um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir ungt fólk að geta eflt orðaforða sinn. 

„Vegna þess að með því að hafa góðan orðaforða þá hefur þú skilning. Ef barn hefur ekki skilning á 98% af því sem er skrifað þá getur það ekki dregið rökréttar ályktanir og það er það sem er að gerast í PISA-könnunum af því að orðaforðinn er ekki nógu ríkur,“ segir Lilja og bætir við:

„Við fórum í mjög mikla vinnu á síðasta kjörtímabili með það að markmiði að efla fagorðaforða og ég vonast til þess að það sé búið að framfylgja því.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert