Mæla ekki með göngum undir Reynisfjall

Vík í Mýrdal. Fremst er Reynisfjall. Samkvæmt nýju mati Vegagerðarinnar …
Vík í Mýrdal. Fremst er Reynisfjall. Samkvæmt nýju mati Vegagerðarinnar er nú gert ráð fyrir að Hringvegurinn verði færður norður fyrir bæinn (vinstra megin), í stað þess að koma í jarðgöngum út við ströndina (hægra megin). mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegagerðin mælir í nýrri umhverfismatsskýrslu ekki með því að grafin verði göng í gegnum Reynisfjall, heldur að Hringvegurinn um Vík verði norðan við bæjarstæðið og að núverandi vegur verði að hliðarvegi. Um Mýrdalinn er annaðhvort mælt með því að vegurinn verði um núverandi vegastæði eða litlu sunnar og fari beinni leið um Gatnabrún í stað þeirrar sveigju sem nú er þar upp.

Um er að ræða svokallaða valkosti 4 og 4b sem Vegagerðin mælir nú með. Er þetta andstætt fyrri hugmyndum um veg um Reynishverfi og 1,3 km jarðgöng undir Reynisfjall.

Vegagerðin mælir nú með að Hringvegurinn um Vík verði norðan …
Vegagerðin mælir nú með að Hringvegurinn um Vík verði norðan við bæjarstæðið og um óbreytta leið um Mýrdal eða færa veginn aðeins sunnar og fara beinni leið um Gatnabrún. Kort/Vegagerðin

Hagkvæmari kostir en jarðgöng og minni umhverfisáhrif

Í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar segir að þessir kostir séu nú fremst í röðinni vegna þess að þeir eru talsvert hagkvæmari en þrír aðrir valkostir sem allir gera ráð fyrir nýjum göngum. Þá hafi valkostir 4 og 4b einnig minni áhrif á umhverfið, en allir valkostirnir eru taldir uppfylla markmið framkvæmdarinnar um bætt umferðaröryggi, greiðfærni og færslu Hringvegarins út fyrir þéttbýli.

Í skýrslunni er tekið fram að þegar horft er heildstætt á þau atriði sem voru til skoðunar fyrir Vegagerðina komi valkostir 1/1b, 2, 3 og 4/4b allir til greina. Í því felst að Vegagerðinni ber að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum, en einnig að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.

Er tekið fram að valkostur 5 komi minnst til móts við kröfur um bætt öryggi og greiðfærni og að vegurinn verði færður út fyrir þéttbýlið, en það er óbreytt lega núverandi vegar, en með lagfæringum vestan Reynisfjalls.

Valkostir um Mýrdal og Vík ásamt afmörkun svæða sem njóta …
Valkostir um Mýrdal og Vík ásamt afmörkun svæða sem njóta verndar eða hafa verið lögð fram sem tillögur að verndarsvæðum. Kort/Vegagerðin

Stofnkostnaður tvöfalt hærri

Valkostir 1/1b, 2 og 3, sem allt eru valkostir sem fara um nýtt vegastæði nærri Reynisfjöru og í gegnum Reynishverfi og svo um jarðgöngin, eru sagðir koma betur út þegar þættirnir öryggi og greiðfærni eru skoðaðir, auk þess að koma til með að bæta tengingar milli svæða. Aftur á móti komi þessir valkostir verr út þegar horft sé til hagkvæmni og áhrifa á umhverfið. Nefnt er að stofnkostnaður sé tvöfalt hærri en hinir kostirnir og stytting Hringvegarins óveruleg.

Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir gjaldtöku í jarðgöngin, en að afar ólíklegt sé að hún muni standa undir framkvæmdakostnaði.

Áhætta af ágangi sjávar

Einnig er horft til áhættu af ágangi sjávar. „Enn fremur er tekin áhætta þegar byggður er vegur á svo útsettri strönd fyrir ágangi sjávar sem Víkurströnd er. Töluverður munur er á því að verja byggð sem er í ákveðinni fjarlægð frá ströndinni samanborið við það að verja veg sem er í fjörunni,“ segir í skýrslunni. Tekið er fram að hægt sé að minnka þessa óvissu og kostnað vegna strandvarna verulega með því að fylgja valkosti 1, en það feli í sér tengingu innan þéttbýlis Víkur.

Vegna þessa telur Vegagerðin þetta ekki raunhæfan möguleika sem stendur. „Í ljósi þess kostnaðar og áhættu sem fylgir valkostum sem fela í sér jarðgöng og veg um Víkurströnd, getur Vegagerðin ekki mælt með þeim á þessu stigi.“

Valkostir 4/4b eru hins vegar taldir uppfylla markmið framkvæmdarinnar um bætt umferðaröryggi, greiðfærni og færslu Hringvegar út fyrir þéttbýli. Þá eru þeir sagðir talsvert hagkvæmari en þeir valkostir sem gera ráð fyrir jarðgöngum. „Því telur Vegagerðin rétt að mæla með valkosti 4 eða 4b,“ segir í skýrslunni.

Kort sem sýnir umferðarslys á Hringveginum um Mýrdal og að …
Kort sem sýnir umferðarslys á Hringveginum um Mýrdal og að Vík á árunum 2014-2022. Kort/Vegagerðin

Áratuga aðdragandi

Rifjað er upp að aðdragandi verkefnisins sé langur og að umræða um jarðgöngin hafi verið til umræðu í áratugi. Í greinargerð samstarfsnefndar um sameiningu Dyrhóla- og Hvammshrepps, sem sameinuðust árið 1984, hafi meðal annars verið talað fyrir því að stefna eigi að gerð nýs vegar nær ströndinni með jarðgöngum um Reynisfjall.

Einnig hafi verið samþykkt ný veglína Hringvegarins um Mýrdal árið 2013 í aðalskipulagi Mýrdalshrepps 2012-2028. Var þá horft til þess að vegurinn myndi liggja suður fyr­ir Geita­fjall, meðfram Dyr­hóla­ós og í gegn­um Reyn­is­fjall í jarðgöng­um sunn­ar­lega í fjall­inu. Það er sambærilegt við valkosti 1/1b og 3.

Ekki í forgandi hjá Vegagerðinni

Vegagerðin vísar í skýrslu sinni á að í drögum að samgönguáætlun 2024-2038, sem Sigurður Ingi Jóhannsson birti í samráðsgátt í júlí í ár, komi fram að langt sé til að Hringvegur um Reynisfjall verði lagfærður. Er einnig vísað til þess að í tengslum við undirbúning samgönguáætlunarinnar hafi tillaga Vegagerðarinnar að forgangsröðun jarðgangakosta verið lögð fram, en þar séu göng um Reynisfjall ekki metin í forgangi og önnur verkefni talin brýnni.

Því er talin ástæða til að ráðast í lagfæringar á Reynisfjalli strax á árunum 2029-2033. Sú framkvæmd nýtist vegfarendum strax með auknu öryggi og greiðfærni og tengist nokkrum þeirra valkosta sem lagðir eru fram í umhverfismatinu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert