Landsréttur staðfesti í dag 16 ára fangelsisdóm yfir Magnúsi Aroni Magnússyni fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmanni Heimissyni að bana í júní á síðasta ári í Barðavogi. Hafði Magnús verið fundinn sekur um manndráp af ásetningi í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Magnús er aðeins 21 árs gamall.
Gylfi lést af völdum heilablæðingar sem og áverka á andliti sem torvelduðu öndun. Læknar sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu árásina vera með því ofsafyllsta sem sést í árásum þar sem ekki er áhald notað.
Athygli vakti í dómi héraðsdóms að þar var sérstaklega vakin athygli á því að þótt Magnús Aron hafi verið metinn sakhæfur, sé ekki útilokað að alvarleg veikindi geti verið í uppsiglingu hjá honum.
Í ljósi mögulegra veikinda hans mat dómurinn mikilvægt að við fullnustu refsingar hans verði litið til stöðu hans og þess gætt að hann fái þá heilbrigðisþjónustu sem hann þurfi á að halda.
Í dómsforsendum héraðsdóms kemur fram að Magnús Aron eigi sér engar sérstakar málsbætur, enda hefði árás hans verið bæði ofsafengin og hrottaleg.
Eftir umfangsmikið mat þriggja geðlækna og eins sálfræðings, sem allir skiluðu matsgerðum í málinu, var Magnús Aron metinn sakhæfur.
Þar með var álitið að refsing gæti borið árangur. Í upphafi hafði einn matsmannanna haft efasemdir að svo væri, en það réði úrslitum þegar hann sá hve vel gekk hjá Magnúsi í gæsluvarðhaldinu.