Afi fékk ekki lán því ferðamenn vildu bara Reykjavík

Unnar Bergþórsson er alinn upp í Húsafelli en afi hans, Kristleifur Þorsteinsson, var frumkvöðull á sínu sviði og vildi laða ferðamenn á þennan fallega stað á Vesturlandi. Unnar, sem er hótelstjóri á Hótel Húsafelli, segir frá því í Hringferðarviðtali í tengslum við 110 ára afmæli Morgunblaðsins að afi hans hafi verið 50 árum á undan sinni samtíð.

„Hann er var mikill frumkvöðull í ferðaþjónustu og við höfum reynt að fylgja eftir hugmyndum hans og reynt að koma þeim í verk. Hann var búinn að tjá skoðun sína á ansi mörgum hugmyndum sem voru fjarstæðukenndar á þeim tíma.

Sem dæmi þá sótti hann um lán til byggja hótel í kringum 1960 hér í Húsafelli. Þá sagði bankamaðurinn við hann að hann væri hálfruglaður því ferðamaðurinn vildi ekki fara út á land. Hann vildi bara vera í Reykjavík. Hann ætti að gleyma þessari hugmynd. Þannig að hann var sirka 50 árum á undan sinni samtíð með sínar hugmyndir,“ segir Unnar. 

Hótel Húsafell er fjögurra stjörnu hótel sem var opnað 2015. Unnar segir að bygging hótelsins hafi farið í marga hringi. Upphaflega hugmyndin var að opna gistiheimili. 

„Í grunninn átti þetta að vera þriggja stjörnu hótel,“ segir Unnar og bætir við: 

„Pabbi var á gröfunni að gera grunninn. Hann er sonur föður síns og var með ansi stórar hugmyndir og gerði alltaf stærri og stærri grunn. Á endanum þá fór þetta úr því að vera gistiheimili í fjögurra stjörnu hótel,“ segir hann og hlær.  

Unnar Bergþórsson segir að afi hans hafi verið langt á …
Unnar Bergþórsson segir að afi hans hafi verið langt á undan sinni samtíð. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert