Forstjóri Landspítalans hefur orðið við beiðni lögmanns konu, sem missti eiginmann sinn eftir að hann gekkst undir plastbarkaaðgerð, og beint erindi um skaðabætur til ríkislögmanns.
Embætti ríkislögmanns er það stjórnvald sem lögum samkvæmt hefur heimildir til þess að semja um slíkar bætur fyrir hönd ríkisins.
Málið varðar bætur til Mehawit Baraymikael Tesfaslae eftirlifandi eiginkonu fyrsta plastbarkaþegans Anemariam Beyene. Landspítalinn fékk frest til dagsins í dag að svara kröfubréfi sem Sigurður G. Guðjónsson og Gestur Gunnarsson, lögmenn sendu fyrir hönd hennar.
Beyene var fyrsti plastbarkaþeginn í heiminum og kom meðal annars Tómas Guðbjartsson að aðgerðinni. Hana framkvæmdi Paolo Macchiarini sem fékk nýlega þungan dóm í Svíþjóð fyrir grófa líkamsárás gegn þremur plastbarkaþegum.
Í tilkynningu frá Landspítalanum segir að niðurstaða dómsins sé forsenda þess að fallist hafi verið á bótagreiðslu til ekkjunnar.
„Landspítali hefur í kjölfar niðurstöðu sænskra dómstóla tekið málið til umfjöllunar að nýju með hliðsjón af þætti spítalans í meðferð fyrsta sjúklingsins sem undirgekkst þessa aðgerð, Andemariam Beyene. Lögmaður ekkju Andemariam Beyene hefur sent forstjóra spítalans erindi þar sem hann óskar þess að Landspítali kynni erindið fyrir ríkislögmanni og sátt verði gerð um bætur til handa ekkjunni með hans aðkomu.
Forstjóri Landspítala telur rétt að upplýsa starfsmenn spítalans um að hann harmar aðkomu stofnunarinnar að málinu, að sjúklingi spítalans hafi verið vísað í meðferð á erlendu sjúkrahúsi þar sem framkvæmd var tilraunaaðgerð, án þess að viðeigandi undirbúningsrannsóknir hafi farið fram, með þeim afleiðingum að sjúklingurinn lést.
Forstjóri hefur átt samskipti við ekkju sjúklingsins og beðið hana afsökunar á hlut spítalans í málinu. Þá hefur forstjóri orðið við beiðni lögmanns ekkjunnar og beint erindi um skaðabætur til ríkislögmanns, en embætti ríkislögmanns er það stjórnvald sem lögum samkvæmt hefur heimildir til þess að semja um slíkar bætur fyrir hönd ríkisins,“ segir í tilkynningu.
Sigurður segir í samtali við mbl.is að dæmi séu um háar bætur sem íslenska ríkið hafi greitt þegar brotið hafi verið á mannréttindum. Engin upphæð var tilgreind í kröfubréfi en nefnir hann Guðmundar og Geirfinnssmálið í því samhengi. Voru þeim sem sættu dómi í því máli dæmdar háar bætur.
„Það eru ekki glögg bótadæmi í svona málum en það megi horfa til þess að Sævari Cisielski og Kristjáni Viðari, hundruð milljóna króna í bætur,“ segir Sigurður.