Líður að aðalmeðferð í máli Eddu

Leifur Runólfsson er lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur.
Leifur Runólfsson er lögmaður barnsföður Eddu Bjarkar Arnardóttur. Samsett mynd

Þrír synir Eddu Bjarkar Arnardóttur eru enn ófundnir eftir því sem lögmaður barnsföður hennar, Leifur Runólfsson, best veit. „Edda er í Noregi og aðalmeðferð [fyrir héraðsdómi í Skien] er 19. og 20. desember ef ég man rétt,“ segir Leifur í samtali við mbl.is en gerir þann fyrirvara að honum hafi verið kynntar dagsetningarnar fyrir alllöngu og eitthvað kunni að hafa breyst.

Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu í Noregi, staðfestir dagsetningar aðalmeðferðarinnar í Skien við mbl.is. „Málið hefst með því að saksóknari flytur mál sitt fyrir réttinum. Sá sem misgert er við [barnsfaðirinn] er frummælandi en í framhaldinu tjáir ákærða sig kjósi hún að gera það,“ útskýrir Haaheim. Því næst fari vitnaleiðslur fram og að lokum séu skjalleg gögn lögð fram í réttinum áður en saksóknari flytur lokaræðu sína.

„Ég mun fyrir hönd föðurins hafa uppi bótakröfu og verjandi ákærðu mun þá fara yfir rök varnaraðila,“ heldur hann áfram.

Sjak R. Haaheim lögmaður mun kalla sérfrótt vitni fyrir Héraðsdóm …
Sjak R. Haaheim lögmaður mun kalla sérfrótt vitni fyrir Héraðsdóm Telemark í Skien í næstu viku. Ljósmynd/Aðsend

Kallar sérfrótt vitni fyrir réttinn

Samkvæmt meginreglum norskra laga sitji ákærða í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur eftir lok aðalmeðferðar hafi hún sætt gæsluvarðhaldi fram að upphafi meðferðarinnar. „Ákærða á rétt á að krefjast þess að hún verði látin laus og rétturinn tekur þá afstöðu til þeirrar kröfu,“ segir Haaheim.

Kveðst hann munu kalla vitni fyrir héraðsdóm, sálfræðing sérfróðan um brottnám barna til annarra landa. „Hún mun vitna um það andlega álag sem það hafði í för með sér fyrir umbjóðanda minn að vakna í tómu húsi og upplifa að börn hans hefðu verið numin á brott öðru sinni,“ segir lögmaðurinn. „Eins mun hún svara spurningum um hversu þungbært það sé börnum að vera numin á brott og þurfa að lifa á flótta,“ segir Haaheim að lokum.

Ólíkir refsirammar

Eins og greint var frá hér á vefnum fyrir rúmri viku á Edda yfir höfði sér ákæru fyrir barnsrán í Noregi þar sem refsirammi fyrir slíkt brot er allt að sex ára fangelsi en mun þyngri á Íslandi eins og Leifur benti þá á í viðtali og vísaði í 193. grein almennra hegningarlaga þar sem segir:

„Hver, sem svipt­ir for­eldra eða aðra rétta aðilja valdi eða um­sjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyr­ir æsku sak­ir, eða stuðlar að því, að það komi sér und­an slíku valdi eða um­sjá, skal sæta sekt­um … 1) eða fang­elsi allt að 16 árum eða ævi­langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert