Vill 17 mánaða dóm yfir Eddu

Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu, fyrir miðju, ræðir við …
Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður Eddu, fyrir miðju, ræðir við Lise Dalhaug saksóknara, lengst til hægri. Fremst á myndinni situr réttargæslulögmaður barnsföðurins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ákærða vissi að hún væri að brjóta af sér þegar hún náði í börnin, það hefur hún viðurkennt, og hún hefur enn fremur gerst sek um alvarlega vanrækslu barnanna,“ sagði Lise Dalhaug saksóknari í lokaræðu sinni fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien í Noregi í dag þar sem síðari dagur aðalmeðferðar í máli Eddu Bjarkar Arnardóttur og barnsföður hennar var setinn.

Kvað Dalhaug það ekki erfitt að gera sér í hugarlund hve þungbært málið hefði verið föðurnum sem hefði ekki hugmynd um hvar börn hans væru niður komin og biði milli vonar og ótta. Stæði drengjunum öll möguleg aðstoð til boða í Noregi er þeir kæmu þangað, sálfræðihjálp og annað er verða mætti þeim til stuðnings.

„[Ákærða] segir að allt gangi svo vel á Íslandi og börnunum gangi vel í skólanum. Hún dregur upp glansmynd sem stenst ekki,“ sagði saksóknari og bætti því við að námið sæktist ekki eins vel og Edda vildi vera láta og drengirnir töluðu bjagaða íslensku.

Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem mál Eddu var flutt …
Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem mál Eddu var flutt í dag og í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Krefst umtalsvert þyngri refsingar

Sagði saksóknari að við rannsókn málsins hefði Eddu verið í lófa lagið að hafa áhrif á hvað börnin segðu um málefni sín og líðan. Hún hefði sagt þeim til um hvað þeim bæri að segja og hverju skyldi svara. „Ef ræða á við börn um mál sem þetta þurfa þau að upplifa öryggi. Auðvitað segjast þau heldur vilja búa á Íslandi en í Noregi og að allt sé gott þrátt fyrir að lögreglu og barnaverndaryfirvöldum sé vel kunnugt um að það er ekki rétt,“ sagði Dalhaug.

Hún sagði ákæruvaldið myndu krefjast umtalsvert þyngri refsingar en þeirrar sem Edda var dæmd til árið 2019 sem var sex mánaða fangelsisrefsing og setti í kjölfarið fram þá kröfu ákæruvaldsins að ákærða yrði dæmd eins árs og fimm mánaða refsingar.

Martraðir og sjálfsvígshugleiðingar

Lokaræða Sjak R. Haaheim, lögmanns barnsföður Eddu og flutningsmanns bótakröfu honum til handa, hófst með svofelldum orðum: „[Edda] hefur sýnt réttinum í Noregi og á Íslandi fullkomna óvirðingu.“ Tíundaði Haaheim því næst þær þjáningar sem umbjóðandi hans hefði liðið síðan drengjunum þremur var komið fyrir á óþekktum stað og þar með ómögulegt að vita nokkuð um líðan þeirra og ástand.

„Hann hefur þjáðst af martröðum, sjálfsvígshugleiðingum og svefntruflunum og verið í veikindafríi frá vinnu um langa hríð,“ sagði Haaheim og benti á að brottnám barna landa á milli væri að verða alvarlegt samfélagsvandamál í heiminum.

„Brottnám barnanna í mars 2022 var þaulskipulagt og framkvæmt á fagmannlegan hátt,“ sagði Haaheim og kvað úrskurðum dómstóla hafa verið sýnd fyrirlitning með brottnáminu. Tveimur tímum eftir að börnin voru tekin af heimili sínu hafi Edda farið í loftið með þau og komið drengjunum milli landa í skjóli falsaðra vegabréfa.

Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður ákærðu, ræðir við mbl.is í …
Sjak R. Haaheim, lögmaður barnsföður ákærðu, ræðir við mbl.is í réttarsalnum í dag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Íslendingar láti vita af börnunum

Vitnaði Haaheim í fjóra norska dóma sem fjölluðu um ólögmætt brottnám barna og flutning þeirra til útlanda á vegum annars foreldrisins í kjölfar forræðisdeilna. Áhrifin á sálarlíf barnanna væru skelfileg og í mörgum tilfellum óafturkræf.

Fór hann þar á meðal yfir nýlegan dóm norska millidómstigsins lögmannsréttar í máli þar sem barn var numið á brott og fært til Súdan og nýtti bótahluta þess sem rökstuðning fyrir kröfu sinni um bætur úr hendi Eddu sem í heildina hljóðaði upp á um það bil 200.000 norskar krónur, jafnvirði tæplega 2,7 milljóna íslenskra króna.

Haaheim ræddi við mbl.is eftir að málflutningi dagsins var lokið. „Nú höfum við farið yfir hve skaðlegt það er börnum að vera rifin af forsjárforeldri sínu, hingað fyrir réttinn kom sálfræðingur í gær og gerði grein fyrir því,“ sagði lögmaðurinn og bað því næst fyrir skilaboð til Íslendinga:

„Ég hvet alla á Íslandi, sem vitneskju kunna að hafa um íverustað drengjanna, til að tilkynna lögreglu, eða Leifi Runólfssyni lögmanni, um þá vitneskju eða grunsemdir, nú er mikilvægast af öllu að hægt verði að hefjast handa sem fyrst við að koma þeim inn í samfélagið á ný,“ sagði hann.

Aðspurður kvað Haaheim málavöxtu ólíka í öllum málunum sem hann hefði vísað til í málflutningi sínum, hins vegar mætti vel byggja á fordæmi þeirra dóma sem í þeim voru felldir hvað bætur snertir til handa því foreldri sem misgert var við.

Sol Elden, verjandi Eddu, kvað háttsemi skjólstæðings síns hafa byggst …
Sol Elden, verjandi Eddu, kvað háttsemi skjólstæðings síns hafa byggst á áhyggjum af velferð sonanna og brotið gæti í engum skikningi talist stórfellt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Taka verði tillit til upplifunar

Sol Elden, verjandi Eddu, tók síðust til máls fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien í dag. „Eins og fram kom í gær játar umbjóðandi minn sök að hluta,“ sagði Elden og lagði í framhaldinu áherslu á að upplifun og háttsemi ákærðu hefðu byggt á áhyggjum hennar af velferð barna sinna og þar með væri engan veginn hægt að kalla háttsemi hennar, brottnám sonanna í mars í fyrra, annað en minni háttar brot.

„Rétturinn verður að taka tillit til upplifunar móðurinnar [...] og langvinns ósættis þeirra foreldranna um sameiginleg börn þeirra. [...] Börnin voru numin á brott af atvinnumönnum,“ sagði verjandinn við Truls Eirik Waale yfirdómara og meðdómendur hans.

Ræddi hún því næst ástand og líðan drengjanna þriggja á Íslandi sem væri engan veginn í samræmi við þá mynd sem ákæruvaldið hefði dregið upp í málflutningi sínum fyrr í dag. Drengirnir ættu vini, þrifust vel og legðu stund á knattspyrnu. „Vissulega eru einhverjir tungumálaörðugleikar fyrir hendi,“ játaði Elden, en slíkt kynni þó varla að teljast meiri háttar.

Þá ræddi Elden dómafordæmi og vísaði í dóma í málum þar sem annað foreldrið hefði numið barn sitt á brott frá hinu. Fór verjandinn yfir þær málsástæður sem talist hefðu sakborningi til refsilækkunar og taldi margar þeirra eiga við í máli umbjóðanda hennar.

Engin þekking á þessu máli

„Ég tel að krafa ákæruvaldsins um eins árs og fimm mánaða refsingu sé of þung og að öllu virtu í þessu máli beri Eddu í mesta lagi eins árs fangelsisrefsing,“ sagði verjandinn undir lok ræðu sinnar og sneri umfjöllun sinni að bótakröfu Haaheim þar sem hún gagnrýndi einkum miskabótakröfu byggða á vitnisburði sálfræðings sem Haaheim leiddi fram í vitnaleiðslum gærdagsins.

Sálfræðingurinn hefði enga áþreifanlega þekkingu á því máli sem fyrir réttinum lægi í dag og tjáði sig því eingöngu á almennum forsendum sinnar fræðigreinar og þekkingar sinnar á öðrum málum. Mæltist hún til þess að dómurinn dæmdi barnsföður Eddu aðeins brot af þeirri upphæð sem Haaheim krafðist í sínum málflutningi.

Í samtali við mbl.is eftir að þinghaldi var slitið í dag sagði Elden að skjólstæðingur hennar héldi því fram að full nauðsyn hefði staðið til þess að grípa til þeirra aðgerða í mars í fyrra sem málið fjallaði um – það væri þungamiðjan í málinu öllu.

Með lögum skal land byggja. Norska ríkisljónið á rauðum feldi …
Með lögum skal land byggja. Norska ríkisljónið á rauðum feldi á vegg í dómsal níu þar sem mál Eddu var flutt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Gæti setið áfram í gæsluvarðhaldi

„Dómar í svipuðum málum hafa hér takmarkaða þýðingu þar sem ástæður og kringumstæður eru alltaf ólíkar frá máli til máls. Við höfum nú krafist þess að hún [Edda] verði látin laus svo hún geti farið heim og sinnt börnunum sínum. Við sjáum svo hvað setur þegar dómur fellur í málinu,“ sagði Elden.

Að lokinni aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins setti Waale gæsluvarðhaldsþinghald en meginregla norsks refsiréttar er að sakborningur sem situr í gæsluvarðhaldi við upphaf aðalmeðferðar sitji áfram í fjórar vikur að henni lokinni og fari þar með beint úr varðhaldinu í afplánun við dómsuppkvaðningu verði hann sekur fundinn.

Ávörpuðu sækjandi og verjandi dómara stuttlega sem sleit þinghaldinu að því búnu en úrskurðar er að vænta á föstudagsmorgun. Í Noregi hefur dómari 24 klukkustundir til að fella úrskurð um gæsluvarðhald eftir handtöku en frestur hans til framhaldsúrskurðar, á borð við þann sem nú fellur, eru rýmri.

Edda Björk Arnardóttir kom að máli við mbl.is að loknu þinghaldi í dag og kvað þær Sol Elden hafa kært Sjak R. Haaheim til norska lögmannafélagsins fyrir lygar þar sem hann tjáði dóminum að synir Eddu hefðu verið bornir öskrandi út af heimili sínu. Auk þess hefði Haaheim í heimildarleysi vitnað í skrif Eddu á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert