Fleiri stofnunum gert að tjá sig um plastbarkamál

Ríkislögmaður mun gera fleiri stofnunum að tjá sig plastbarkamálið svokallaða. …
Ríkislögmaður mun gera fleiri stofnunum að tjá sig plastbarkamálið svokallaða. Of snemmt er að segja hvaða stofnanir það eru að sögn ríkislögmanns.

Fleiri stofnunum en Landspítala verður gert að taka afstöðu til plastbarkamálsins svokallaða. Landspítali hefur beðið ekkju Andemariam Beyene afsökunar á sínum þætti í málinu en vangaveltur eru um það hvort fleiri stofnanir beri ábyrgð. 

Þannig hafa Háskóli Íslands og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) verið gagnrýndar í tengslum við málið. Háskóli Íslands sökum þess að Tómas Guðbjartsson var skrifaður fyrir vísindagrein sem birtist um aðgerðina í tímaritinu Lancet árið 2011.

Þá borguðu SÍ hluta ferðakostnaðar Andemariam Beyene þegar hann fór til Svíþjóðar þar sem gervibarki var græddur í hann. 

Áfrýj­un­ar­dóm­stóll í Svíþjóð dæmdi á dögunum ít­alska skurðlækn­inn Paolo Macchi­ar­ini í tveggja og hálfs árs fang­elsi fyr­ir að græða plast­barka í þrjá sjúk­linga á Karólínska sjúkra­hús­inu í Stokk­hólmi. Meðal sjúklinga var Andemariam.

Ekki sjálfkrafa bótaskylda 

Eins og fram hefur komið vísaði Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, erindi lögmanns ekkju Andemariam um bætur til ríkislögmanns. Þá bað hann hana jafnframt afsökunar á hlut spítalans í málinu.

Fanney Rós Þorsteinsdóttir er ríkislögmaður.
Fanney Rós Þorsteinsdóttir er ríkislögmaður.

Að sögn Fanneyjar Rósar Þorsteinsdóttur ríkislögmanns er afsökunarbeiðni Landspítala og vísun til embættisins ekki sjálfkrafa viðurkenning á bótaskyldu. Fyrst þurfi embættið að leita umsagnar þar til bærra aðila. Meðal annars frá ólíkum ráðuneytum og stofnunum. Við blasir að heilbrigðisráðuneytið og Landspítali verði beðin um umsögn en að sögn hennar er of snemmt að segja til um það hvaða fleiri ráðuneyti og stofnanir verði beðnar um umsagnir um málið. 

Oft fleiri en ein stofnun

Hún segir að næstu skref verði að afla gagna frá stofnunum sem geti upplýst frekar um málið. Eins verði þær beðnar um að taka afstöðu til málsins. 

„Það mun berast bréf frá okkur til viðeigandi aðila. Oft eru þetta fleiri en ein stofnun og ráðuneyti sem eru þarna undir,“ segir Fanney. 

„En það sem er óvenjulegt í þessu máli er það að vanalega beina lögmenn kröfum sínum beint til ríkislögmanns. En í þessu tilfelli fer hann til Landspítala sem svo beinir erindinu til okkar,“ segir Fanney.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert