Segja lögregluna hafa farið langt yfir mörk

Segja lögregluna hafa farið langt yfir mörk með handtöku á …
Segja lögregluna hafa farið langt yfir mörk með handtöku á lögmanni Eddu. mbl.is/samsett mynd

Starfsmenn lögmannsstofunnar þar sem lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur starfar, segja engan vafa leika á því að lögreglan hafi farið langt yfir eðlileg og málefnaleg mörk, og hugsanlega gerst brotleg við lög, þegar lögmaðurinn var handtekinn í gær. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Atli Már Ingólfsson lögmaður sendi mbl.is fyrir hönd Land Lögmanna í kjölfar þess að lögmaður Eddu var í gær handtekinn á skrifstofu lögmannsstofunnar.

Segir í tilkynningunni að þrír lögreglumenn hafi mætt á stofuna og handtekið lögmanninn án nokkurs fyrirvara og án þess að hafa reynt að boða hann til yfirheyrslu. 

Lögreglan hugsanlega gerst brotleg við lög

Eftir að hafa farið vel yfir atvik gærdagsins og störf lögmannsins í þágu umbjóðanda síns, m.a. með hliðsjón af þeirri trúnaðarskyldu sem lögmenn hafa lögum samkvæmt við alla umbjóðendur sína, leikur enginn vafi á því í huga samstarfsmanna lögmannsins að lögreglan hefur með aðgerðum sínum farið langt yfir eðlileg og málefnaleg mörk og hugsanlega gerst brotleg við lög,“ segir í tilkynningunni. 

Segir jafnframt að handtökuna megi rekja til þess að umræddur lögmaður hafi gætt hagsmuna móður [Eddu Bjarkar] sem hefur staðið í harðri deilu við barnsföður sinn í Noregi vegna afhendingar þriggja barna þeirra. 

Lögreglan hafði upp á börnunum, eða drengjunum, þremur í gær og var þeim komið í umsjón barnaverndaryfirvalda. Í kjölfarið voru fjórir handteknir vegna málsins, meðal annars lögmaður stofunnar. 

Lögmaður ber þagnaskyldu 

„Samkvæmt 22. gr. laga um lögmenn ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Í því ljósi ber að skoða þessar harkalegu aðgerðir lögreglunnar gegn lögmanni, sem rækir starfa sinn innan ramma laganna og eftir þeim leiðum sem lögin heimila.“

Þá segir að lögreglan þekki þessar mikilvægu skyldur vel og þar af leiðandi verði ekki komist hjá því að draga þá ályktun að með aðgerðum sínum hafi lögreglan hugsanlega ætlað að tryggja að umræddur lögmaður gæti ekki sinnt starfi sínu og skyldum, í þágu umbjóðenda síns, meðan synir hennar voru teknir með lögregluvaldi og fluttir úr landi, á sama tíma og lögmaðurinn var í haldi. 

Að lokum segir að lögmenn stofunnar muni standa þétt við bakið á lögmanninum í þeim skrefum sem tekin verða í framhaldinu, enda verði að skoða lögmæti aðgerðarinnar og vinnubrögðin sem kunni að hafa afleiðingar í för með sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert