Engin sólarhringsopnun í neyðarskýlum um jólin

Neyðarskýlið á Lindargötu.
Neyðarskýlið á Lindargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki verður opið allan sólarhringinn í neyðarskýlunum fyrir heimilislausa í Reykjavíkurborg yfir hátíðirnar eins og áður. Þess í stað býðst þeim sem þurfa að verja tíma sínum á kaffistofu Samhjálpar þegar lokað er í neyðarskýlunum.

Ný vetraropnun er nú í gildi í neyðarskýlunum og verður engin breyting á opnunartímanum yfir jólahátíðina. Opið er í skýlunum á milli klukkan 17 og 10 morguninn eftir. 

Sama gildir á hátíðardögum

Fyrr í vetur samdi Reykjavíkurborg við Samhjálp um sérstaka vetraropnun fyrir gesti neyðarskýla til að brúa bilið þegar lokað er í skýlunum. 

„Þegar neyðarskýlin loka klukkan 10 geta gestir farið þangað og fengið kaffi og með því og það gildir á hátíðardögum eins og aðra daga,“ segir Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upp­lýs­inga­full­trúi á vel­ferðarsviðið Reykja­vík­ur­borg­ar, í samtali við mbl.is.

Á kaffistofunni verður án vafa hátíðleg stemning, að sögn Hólmfríðar Helgu. Kaffistofan er venjulega opin alla daga ársins á milli klukkan 10 og 14. Þar er boðið upp á morgunverð, kaffi og heitan mat.

Vetraropnun í desember, janúar og febrúar

Snemma í vetur var kallað eftir því að fundinn yrði samastaður fyrir þá gesti sem nýta neyðarskýlin yfir vetrarmánuðina þegar bæði neyðarskýlin og kaffistofan loka dyrum sínum, að því er segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar frá því í nóvember.

Var þá falið velferðarráði velferðarsviðs borgarinnar að útfæra tillögu um rekstur tímabundins dagsathvarfs frá desember 2023 til febrúar 2024.

Að lokum fór svo að samið var við Samhjálp um að hafa kaffistofuna opna á milli klukkan 14 og 16.30 alla daga í desember, og í janúar og febrúar á næsta ári. Opnunin er hugsuð fyrir heimilislausa sem hafa miklar og flóknar þjónustuþarfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert