Vill að bankarnir taki á sig meiri ábyrgð

Breki segir bankana eiga að axla aukna ábyrgð þegar komi …
Breki segir bankana eiga að axla aukna ábyrgð þegar komi að netsvikum. Samsett mynd

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir tilfellum netsvika hafa fjölgað umtalsvert að undanförnu. 

Hann segir samtökin telja að aukin ábyrgð eigi að færast í hendur bankanna þegar komi að svikum af þessu tagi, bæði þegar komi að fyrirbyggjandi aðgerðum og aðstoð við endurheimt glataðs fjár. 

Með aukinni netverslun fylgi fleiri svikasíður

„Tilfellum netsvika hefur fjölgað mjög, en því miður er það þannig að með meiri netverslun er meira um svikasíður,“ segir Breki. 

„Þetta eru síður sem þykjast vera að selja þekktar vörur, en þegar til kemur eru þetta bara svik og fólk er ekki að fá þær vörur sem það heldur að það sé að kaupa. Þess vegna er mikilvægt að fólk hafi augun hjá sér þegar það sér auglýsingar á samfélagsmiðlum sem sýni vörur á ótrúlega lágu verði.

Þá er það fornkveðna að ef eitthvað hljómar eins og það sé of gott til að vera satt er það líklega þannig.“

Netsvik orðin fjölbreyttari í sniðum

Breki segir netsvik hafa þróast mikið á undanförnum árum og séu þau nú mun fullkomnari. Þá sé íslenskukunnátta svikahrappanna einnig að aukast til muna þar sem þeir geti notfært sér nýjustu tækni, þar á meðal gervigreind. 

„Áður fyrr var þetta frekar bundið við svik á Messenger þar sem fólk var beðið um að senda símanúmer og svoleiðis, en nú er þetta orðið mun fjölbreyttara en áður,“ segir Breki. 

Hann segir fólk geta haft samband við Neytendasamtökin ef það lendi í fjársvikum á netinu. „Við aðstoðum félagsmenn við það að reyna að ná þessu til baka og í mörgum tilvikum er hægt að gera það ef brugðist er skjótt við.“ 

Fara fram á aukna þátttöku bankanna

Að sögn Breka telja Neytendasamtökin að bankarnir eigi að axla aukna ábyrgð þegar komi að netsvikum, en hann segir samtökin hafa sent erindi til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki þess efnis. 

„Við teljum að bankarnir eigi að gera meira en þeir eru að gera til þess að aðstoða fólk frekar,“ segir Breki. 

„Í fyrsta lagi við það að koma í veg fyrir þessi svik því að bankarnir hafa tæknina til þess, en hins vegar líka í því að endurheimta féð af því að við teljum að bankarnir hafi ríkari skyldu til þess að greiða fólki en þeir gera.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert