Hefði ekki varið ráðherra vantrausti

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að stjórnsýsla matvælaráðherra við setningu hvalveiðibanns hafi verið óverjandi. Hann geti ekki og gæti ekki varið hana.

Þetta kemur fram í þætti Dagmála, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er áskrifendum.

Þau Teitur og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, ræða þar helstu verkefnin sem við blasa á Alþingi og einnig hið boðaða vantraust á hendur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem dregið var til baka eftir að hún greindi frá veikindum sínum.

Hvorugt þeirra telur málið útrætt, það snúi að alvarlegum ágöllum á stjórnsýslu ráðherrans, sem hafi farið út fyrir ramma laganna. Það þurfi að hafa einhverjar afleiðingar. Yfirlýsing Svandísar á mánudagsmorgun hafi ekki borið vott um neitt slíkt og valdið miklum vonbrigðum.

Teitur Björn segir að stjórnsýsla matvælaráðherra við setningu hvalveiðibanns hafi …
Teitur Björn segir að stjórnsýsla matvælaráðherra við setningu hvalveiðibanns hafi verið óverjandi. Samsett mynd

Ákveðin að verja ráðherra ekki

Þorbjörg segir að hún hafi verið búin að gera upp við sig að greiða atkvæði með vantraustinu, ekki aðeins vegna málatilbúnaðar Svandísar, heldur ekki síður þeirra svara sem á eftir sigldu og bentu til þess að hún hefði lagt hvalveiðibannið á gegn betri vitund og í trássi við lög.

Teitur segir að hans afstaða hafi legið skýr fyrir frá upphafi og hann hafi ekki dregið dul á hana. Framganga ráðherrans hafi verið óverjandi og hann gæti ekki varið hið óverjanlega.

Í þættinum bar margt fleira á góma, svo sem aðgerðir vegna hamfaranna í Grindavík, ríkisfjármál, kjarasamningar, orkumál og útlendingamál.

Áskrifendur geta horft á þáttinn allan með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert